Árgangur 1966 boðaður í bólusetningu

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur boðað fólk sem verður 55 ára á árinu (árgang 1966) í bólusetningu með AstraZeneca á fimmtudag. Samkvæmt frétt á vef embættis landlæknis verður konum yngri en 55 ára á Íslandi boðið annað bóluefni en AstraZeneca þegar kemur að þeim að fá bóluefni þannig að þetta eru yngstu konurnar sem verða bólusettar með AstraZeneca hér á landi sem verða bólusettar á fimmtudag eins og staðan er í dag. 

Í dag verður bólusett með Pfizer og á morgun verður bólusett með Janssen. Á föstudag er bólusett með Moderna-bóluefninu en til stóð að bólusetja með því á fimmtudag en því hefur verið breytt. 

Gert er ráð fyrir að 40 þúsund einstaklingar verði bólusettir hér á landi í þessari viku, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins frá embætti landlæknis. Fá samtals 14 þúsund Pfizer-bóluefnið, bæði fyrri og seinni bólusetningu, og um 15.000 manns fá bóluefni AstraZeneca. Einnig fara samtals 6.500 skammtar af Janssen-bóluefninu í dreifingu og á höfuðborgarsvæðinu verða 4.000 einstaklingar bólusettir með Moderna-bóluefninu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði við mbl.is í gær sennilegt, að þegar bólusetningu forgangshópa lýkur verði ekki bólusett eftir aldurshópum heldur verði fólk boðað tilviljanakennt í bólusetningu.

Aðspurður segist Þórólfur vona, að bólusetningu forgangshópa ljúki á næstu vikum. „En þetta stendur allt og fellur með því hversu mikið bóluefni við fáum. Við erum ekki búin að fá dreifingarlistann frá AstraZeneca fyrir maí og júní þannig að nú erum við að nota Pfizer mest.“

Í dag verður minnisblað Þórólfs rætt á ríkisstjórnarfundi en núgildandi sóttvarnareglur gilda til morguns. 

Í viku 18 er er búið að skipuleggja þessar bólusetningar í Laugardalshöll:

  • Þriðjudaginn 4. maí verður Pfizer-bólusetning. Þá er seinni bólusetning. Búið er að senda SMS-boð til þeirra sem býðst bólusetning þennan dag.
  • Miðvikudaginn 5. maí verður Janssen-bólusetning. Verið er að leggja síðustu hönd á boðunarlista fyrir þennan dag.
  • Fimmtudaginn 6. maí  verður AstraZeneca-bólusetning. 
  • Föstudaginn 7. maí verður Moderna-bólusetning. Þá er seinni bólusetning. Búið er að senda SMS-boð til þeirra sem býðst bólusetning þennan dag. Þetta er breytt dagsetning en fyrra boð var afturkallað.

Ekki eru staðfestir fleiri bólusetningardagar í þessari viku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert