Borgarstjórn samþykkir að loka Laugavegi á ný

Laugavegurinn verður aftur að sumargötu eftir samþykkt borgarráðs í kvöld.
Laugavegurinn verður aftur að sumargötu eftir samþykkt borgarráðs í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Á ellefta tímanum í kvöld samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur áframhaldandi tímabundna lokun hluta Laugavegar, en heimild til lokunar, sem hafði verið framlengd eftir síðasta sumar yfir allan veturinn, rann út 1. maí. Tæknilega séð var því Laugavegurinn að fullu opinn fyrir umferð bifreiða í tæplega fjóra sólarhringa þangað til borgarstjórn samþykkti áframhaldandi lokun.

Málið nær aftur til síðasta hausts þegar borgarráð hafði samþykkt að hinar svokölluðu sumargötur á Lauga­vegi milli Frakka­stígs og Klapp­ar­stígs, og Vatns­stíg­ur milli Lauga­veg­ar og Hverf­is­götu yrðu áfram tíma­bundn­ar göngu­göt­ur til 1. maí 2021.

Skipu­lags- og sam­gönguráð og borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur samþykktu að aug­lýsa eft­ir til­lögu að nýju deili­skipu­lagi fyr­ir Lauga­veg­inn sem göngu­götu. Gert var ráð fyr­ir að deili­skipu­lagið yrði af­greitt á fyrsta fjórðungi árs­ins 2021 og að það tæki gildi fyr­ir 1. maí.  Það gekk hins vegar ekki eftir.

Lagt var til í skipu­lags- og sam­gönguráði að fram­lengja á ný und­anþágu­ákvæði um tíma­bundna lok­un. Mót­atkvæði bár­ust bæði í borg­ar­ráði og skipu­lags- og sam­gönguráði. Þar af leiðandi þarf málið að fara í fullnaðaraf­greiðslu í borg­ar­stjórn. Borgarstjórn kom hins vegar ekki saman fyrr en í dag, líkt og hefðbundið er á fyrsta þriðjudegi mánaðar. Var fundargerð borgarráðs þá tekin fyrir ásamt öðrum málum.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, mætti fyrst í pontu við umræðu málsins í borgarstjórn og gagnrýndi stjórnsýsluna í kringum málið. Gagnrýndi hún jafnframt lokun Laugavegar almennt og að lokunin hefði mikil áhrif á verslun á svæðinu, sem hún sagði nú vera „draugabæ Dags B. Eggertssonar“.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, mætti einnig í pontu og gagnrýndi að enn væri verið að framlengja tímabundna lokun götunnar, þegar hið rétta væri að verið væri að loka henni varanlega. Það hefði hins vegar ekki gengið upp í deiliskipulagsvinnunni og því væri tímabundin lokun í formi varanlegrar lokunar misnotkun á því hugtaki.

Í framhaldinu var gengið til atkvæða. Vigdís, auk Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, og sex af átta borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn því að samþykkja fundargerð borgarráðs og þar með lokunina. Allir fulltrúar meirihlutans og Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, greiddu atkvæði með samþykkt. Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert