Enduro-keppnirnar fara í gegnum breytingar

Enduro-hjólreiðar njóta sívaxandi vinsælda um þessar mundir.
Enduro-hjólreiðar njóta sívaxandi vinsælda um þessar mundir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enduro-fjallahjólreiðar eru ein þeirra greina sem hafa sprungið út í vinsældum á undanförnum árum. Það sést meðal annars á því að keppnirnar eru að verða stærri og í ár var áformað að fjölga þeim, þó að faraldurinn geti að lokum haft áhrif á þau plön.

Greinin hefur hingað til ekki verið formlega undir væng Hjólreiðasambandsins, en fyrr í mánuðinum varð breyting þar á með samþykki sambandsins. Er þar með stefnt á að haldin verði bikar- og Íslandsmót, auk þess sem til skoðunar er að koma upp rafhjólaflokki í enduro-mótum.

Elmar Ari Jónsson er einn forsvarsmanna fjallahjólreiða hjá Tindi, en félagið áformaði að standa að bæði vor- og haustfagnaði í enduro á þessu ári. Hann hefur verið viðloðandi enduro-keppnir sem og aðrar fjallahjólreiðar undanfarin ár, meðal annars í gegnum skipulagsvinnu hjá Tindi. Hann segir að fram undan í greininni geti verið talsverðar breytingar, en mikilvægt sé þó að halda áfram í hin gömlu gildi keppnishaldsins, sem hafi umfram allt snúist um að hafa gaman og njóta samveru við aðra þátttakendur.

Lengi vel var horft til þess að hámarksfjöldi í keppnunum væri um 100 manns, en Elmar segir að það hafi aðallega verið út frá tímatökugræjum. Í dag sé hægt að hafa mun fleiri þátttakendur, en hjá Tindi sé allavega horft til þess að um 150 sé ágætt hámarksviðmið upp á utanumhald, meðal annars varðandi brautarstarfsmenn og fyrstu hjálp. Þá sé þetta líka góður hópur til að halda góðri stemningu, meðal annars með grilli og skemmtun eftir keppnina.

„Það má alveg vera smá fjör“

Eins og með margt jaðarsport byrjaði enduro hér á landi sem hressandi samkomur þeirra sem tengdust þessari tegund hjólreiða. Elmar segir að grunnatriðið hafi verið að fólk kæmi saman, slakaði á og skemmti sér á milli þess sem sprettir væru teknir á sérleiðunum. Í lokin endaði dagurinn svo með drykkjum og grilli og í flest skipti með skemmtun um kvöldið. Spurður hvort þetta viðhorf gæti ekki horfið ef keppnishliðin verður ofan á segir Elmar að það geti vel orðið einhverjar breytingar, en hann vilji ekki að grundvallargildin deyi út. „Þetta má ekki breytast í strípaða keppni án þessa auka,“ segir hann. „Það má alveg vera smá fjör og gleðskapur í kringum þetta og fólk ræður þá bara hvort það mætir í skemmtunina eftir á, en fjörið verður að vera stór þáttur í þessum keppnum.“ Hann telur skráningu greinarinnar formlega hjá Hjólreiðasambandinu skipta miklu máli og að einkum yngri kynslóðin muni fara að æfa sérstaklega fyrir keppnirnar og mæta í keppnishug til leiks. „Ég vona að þessi keppnisþáttur vaxi og þá sérstaklega hjá yngri kynslóðinni,“ segir Elmar um framhaldið.

Undanfarin ár hefur verið uppselt í svo gott sem allar enduro-keppnirnar og talsverð umframeftirspurn eftir miðum. Hingað til hafa alla jafna verið haldnar þrjár keppnir á ári, en í ár var stefnan á að fjölga þeim upp í fjórar. Þ.e. Tindur ætlaði að sjá um vor- og haustfagnaðinn, en sumarfagnaður yrði á Ísafirði í ágúst auk keppninnar á Akureyri sem jafnframt er EWS-úrtökumót. Þegar þetta er skrifað þykir nokkuð ljóst að vorfögnuðurinn fari ekki fram vegna sóttvarnaráðstafana, en bjartsýni er með aðrar keppnir, enda eru þær frá í lok júlí og fram í október samkvæmt mótaskrá. Þess skal einnig getið að tvö ungduro eru áformuð í sumar, annað á Ísafirði og hitt við höfuðborgarsvæðið, en þær keppnir eru hugsaðar fyrir yngri kynslóðir.

Rafhjólin breyta mjög miklu upp á æfingar að gera, að …
Rafhjólin breyta mjög miklu upp á æfingar að gera, að sögn Elmars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir komnir á rafhjól og horfa ekki til baka

Eins og sjá má virðist áhugi fyrir keppnunum fyrir hendi og segir Elmar ekki loku fyrir það skotið að þeim gæti fjölgað á komandi árum ef áhuginn haldi áfram að vaxa. Vorfagnaðurinn átti að vera tímamótakeppni fyrir tvennar sakir. Annars vegar var það áformað sem fyrsta bikarmót í greininni hér á landi og hins vegar segir Elmar að hugmyndin hafi verið að hafa rafhjólaflokk. Þetta komi í framhaldi af miklum vinsældum slíkra hjóla hér á landi undanfarin ár, líkt og sjá má í annarri umfjöllun hér í blaðinu. Elmar segir rafhjólin breyta gríðarlega miklu upp á æfingar að gera og opna möguleika sem fyrirfundust ekki áður.

Nefnir hann sem dæmi að nýlega hafi hann farið með félaga sínum í Esjuna. Sjálfur hafi hann verið á rafmagnshjóli en félaginn á hefðbundnu fjallahjóli. Elmar hafi hjólað stærstan hluta leiðarinnar upp en félaginn þurft að bera hjólið stærstan hluta. Leiðin upp tók um klukkustund en niðurferðin um 10 mínútur. Samtals hafi hann því fengið 70 mínútur á hjólinu en félagi sinn aðeins um 10 mínútur. Þá þýði rafmagnið einnig að allt í einu margfaldist ferðafjöldinn sem hægt sé að fara og þar með æfingin. Nefnir hann sem dæmi að áður hafi hann kannski verið að fara eina eða tvær ferðir um fellin inni í Mosfellsdal á um þremur klukkustundum, sem sé oft hæfilegur hjólatími eftir vinnu eða um helgar. Í dag með rafmagnshjólum fari vinahópurinn 4-6 ferðir og því sé bæði ferðafjöldinn að aukast sem og heildartíminn á hjólinu, enda geti þeir nú hjólað upp flestar leiðirnar líka. „Við erum um 15 saman í hópi. Það hefur enginn snert gamla hjólið eftir að menn fengu rafhjólið,“ segir Elmar.

Hvað er enduro?

Enduro-keppnir eru fjallahjólakeppnir sem mætti segja að væru mitt á milli ólympískra fjallahjólreiða og fjallabruns, en með sérleiðafyrirkomulagi. Ólympískar fjallahjólreiðar eru það sem almennt er þekkt sem fjallahjólreiðar hér á landi, en þá er hjólaður fyrirframákveðinn hringur í nokkur skipti og þarf keppandi að vera í mjög góðu líkamlegu formi. Í fjallabruninu er hins vegar mun meiri áhersla á tæknilegu hliðina þar sem dúndrað er niður brekkur, stokkið á pöllum og farið í gegnum tæknilega erfiða braut.

Í enduro er farin löng leið, en henni er skipt upp í fjölda styttri sérleiða. Tímataka er á hverri sérleið og gildir samanlagður tími til úrslita. Algengt er hér á landi að hver sérleið sé um ein og hálf mínúta upp í sex mínútur, en styttri leiðir þekkjast líka. Erlendis geta sérleiðir orðið allt upp í 15 mínútur, en stærð fjalla hér á landi er oft takmarkandi þáttur.

Hver sérleið þarf að vera alla vega 80% niður á við, en á milli sérleiða hjólar hópurinn saman svokallaðar ferjuleiðir og er þá oft um einhverja hækkun að ræða til að vinna upp fyrir lækkun í fyrri sérleið. Ekki er tekinn tíminn á ferjuleiðunum.

Sportið er aðeins um 15 ára gamalt og er ættað frá Frakklandi. Ekki er óalgengt að vera á fjallahjólum með um 150 mm fjöðrun. Hér á landi hefur verið keppt í greininni frá 2014, en Enduro Ísland stóð næstu ár fyrir vor-, sumar- og haustfagnaði. Síðustu ár hafa hjólreiðafélögin tekið við mótahaldi og eru mótin haldin á höfuðborgarsvæðinu, á Vestfjörðum og á Akureyri. Fyrir norðan var í fyrra í fyrsta skiptið haldið úrtökumót fyrir alþjóðakeppnina EWS, Enduro world series, og verður það aftur í ár.

Greinin birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins 30. apríl.

Keppnisdagatal hjólreiðamanna 2021. Skipuleggjendur Reykjanesmótsins og vortímatökunnar hafa gefið út …
Keppnisdagatal hjólreiðamanna 2021. Skipuleggjendur Reykjanesmótsins og vortímatökunnar hafa gefið út að stefnt sé að því að halda mótin á tilsettum tíma. Samkvæmt heimildum Hjólablaðsins er líklegt að Vorenduro Tinds frestist um viku. Kort/mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »