Hættusvæðið mögulega stækkað í dag

Eldgosið sést nú vel fráhelstu útsýnisstöðum Reykjavík
Eldgosið sést nú vel fráhelstu útsýnisstöðum Reykjavík mbl.is/Kristinn Magnússon

Til skoðunar er að stækka hið svonefnda hættusvæði í kringum eldgosið í Geldingadölum og munu helstu viðbragðsaðilar funda í dag kl. 9 til þess að ákveða næstu skref.

Vísindamenn Veðurstofu Íslands hafa reiknað út hversu hratt og langt hraunsletturnar sem nú berast upp úr gígnum geta farið, en þær eru á bilinu 5-15 cm að þvermáli, og nær gosstrókurinn nú allt að 300 metra hæð. Sendu þeir frá sér tillögu á sunnudaginn um að miðað verði við 500 metra radíus frá gosinu.

Stöðugt hefur brotnað úr barmi gígsins sem nú gýs í Geldingadölum. Um helgina fór töluvert af kvikustrókunum út um eitt skarðið og myndaði í fyrsta sinn í eldgosinu kvikustrókahraun sem rann niður hlíðina. Mestu kvikustrókahraun sem þekkt eru á Íslandi eru í Kverkfjöllum. Þá þeyttu kvikustrókar hraunslettum meira en einn kílómetra frá gígnum. Sletturnar runnu saman í hrauntaum sem rann niður hlíðarnar, út dalinn og fimm kílómetra að auki.

Fyrr í gosinu í Geldingadölum höfðu myndast kleprahraun þegar einstaka hraunslettur lentu utan á hlíðum gíga og runnu saman. Það hefur því verið fjölbreytt virkni í þessu eldgosi að sögn eldfjallafræðinganna Ármanns Höskuldssonar og Þorvaldar Þórðarsonar.

Kvika streymdi inn í ónefnda dalinn og niður í Meradali í fyrrakvöld. Meiri hreyfing var á hrauninu í Meradölum, að sögn Ármanns. Báðir hraunangarnir voru lifandi. Hraun streymdi líka inn í suðurhluta Geldingadala, að sögn Þorvaldar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert