Hraunrennslið með því mesta sem sést hefur í gosinu

Engin merki eru um að gosið sé að gefa eftir.
Engin merki eru um að gosið sé að gefa eftir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rennsli hrauns upp úr gosstöðvunum í og við Geldingadali nam að meðaltali 7,5 rúmmetrum á sekúndu undanfarna viku.

Þetta eru niðurstöður vísindamanna við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem unnar eru upp úr gögnum sem fengust í flugi yfir gosstöðvarnar síðdegis í gær.

Þá voru teknar loftmyndir úr flugvél Garðaflugs með Hasselblad-myndavél Náttúrufræðistofnunar og unnin eftir þeim landlíkön af hrauninu í og umhverfis Geldingadali.

Þekur 1,41 ferkílómetra

Hraunrennslið er heldur meira en mældist í vikunni á undan, en svipað því sem mældist þar áður.

„Engin merki eru því um að gosið sé að gefa eftir,“ segir á vef stofnunarinnar.

Rúmmál gosefna er nú orðið 23 milljónir rúmmetra og flatarmál hraunsins 1,41 ferkílómetri. Mesta breytingin síðustu vikuna er í dældinni milli Stórahrúts og hnjúkanna austan Geldingadala og í tungunni þaðan niður í Meradali.

45 dagar eru frá upphafi gossins.
45 dagar eru frá upphafi gossins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú tímabil

Bent er á að þeim 45 dögum sem liðnir eru frá upphafi gossins megi gróflega skipta í þrennt.  

Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu en þó örlítið minnkandi hraunrennsli. Rennslið hafi farið úr 7-8 rúmmetrum á sekúndu í 4-5 rúmmetra á tveimur vikum.

„Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana.“ Hraunrennslið þá var nokkuð breytilegt, eða á bilinu 5-8 rúmmetrar á sekúndu.

Þriðja tímabilið, síðustu tvær vikur, hefur einn gígur verið ráðandi og kemur nær allt hraunið úr honum. „Hraunrennsli hefur heldur vaxið á þessum tíma, og er nú með því mesta sem sést hefur í gosinu,“ segir á vef stofnunarinnar.

Breytt hegðun en óbreytt rennsli

Tekið er fram að nýlegar breytingar á goshegðuninni, þar sem ýmist rísa háir kvikustrókar upp úr gígnum eða að strókavirkni liggur niðri, virðast ekki hafa haft merkjanleg áhrif á hraunrennslið, a.m.k. ekki enn sem komið er.

„Samanburður við önnur gos sýnir að rennslið er svipað og var lengst af í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967. Gosin eru þó ekki alveg sambærileg, því fyrstu vikur Surtseyjargossins var streymi kviku til yfirborðs margfalt meira. Rennslið við Geldingadali er um 5% af meðalrennsli í Holuhrauni þá sex mánuði sem það gos stóð, frá september 2014 til loka febrúar 2015.“

Ekki sé hægt að segja til um nú hve lengi gosið muni standa, en þróun hraunrennslis með tíma muni gefa vísbendingar þegar fram í sækir.

Sjá eldgosið í beinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert