Sorglegt að sjá eldinn kvikna

Mikinn reyk hefur lagt frá Heiðmörk í dag.
Mikinn reyk hefur lagt frá Heiðmörk í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gróðureldurinn í Heiðmörk nær að minnsta kosti yfir fimm hektara svæði þar sem kjarr og furuskógur eru í bland. Upptökin voru í kringum Hjalladal, austan við Vífilsstaðavatn, að sögn Auðar Kjartansdóttur, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.

„Það var ósköp leitt að það skyldi kvikna þarna eldur,“ segir Auður og bætir við að Heiðmörk hafi orðið 70 ára á síðasta ári og að Skógræktarfélag Reykjavíkur sé 120 ára í ár en Heiðmörk er 32 ferkílómetrar að stærð.

Slökkviliðsmenn að störfum í Heiðmörk.
Slökkviliðsmenn að störfum í Heiðmörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Heiðmörk mun ná sér“

Hún segir sorglegt að sjá eldinn kvikna á þessu svæði þar sem mikið sjálfboðaliðastarf hefur verið unnið og dugmikið fólk staðið á bak við uppbyggingu skjóls og fallegrar gróðurþekju fyrir höfuðborgarbúa. „En jarðvegurinn er frjósamur og Heiðmörk mun ná sér. Við munum halda ótrauð áfram og vonandi byggja skóginn upp aftur þegar það er búið að ná tökum á þessu. Hugur minn er fyrst og fremst hjá slökkviliðsmönnunum á vettvangi og þakklæti vegna þeirra mikla starfs,“ bætir Auður við.

Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Heiðmörk er vatnsverndarsvæði og Skógræktarfélag Reykjavíkur er umsjónaraðili þess. Félagið er í nánu samstarfi við Veitur við að huga að vatnsvernd og nefnir Auður að gróðurþekja sé mjög mikilvæg fyrir vatnsverndina. Þannig berst mengun síðar í grunnvatnið ef gróðurþekjan er þykk. Aðspurð segist hún ekki getað svarað því hvort hætta sé á að mengun berist í grunnvatnið en fulltrúar frá heilbrigðiseftirlitinu eru á vettvangi.

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Starfsfólk Skógræktarfélags Reykjavíkur fór um svæðið þar sem upptök eldsins voru á milli klukkan 15 og 15.30 í dag og urðu þeir ekki varir við eld. Auður segir starfsfólkið ávallt hafa mikið og gott eftirlit með allri Heiðmörk.

Ekki er ljóst hvernig eldurinn kviknaði en Auður bendir á að óvenjuþurrt hafi verið í vor og frost sé að hluta til að fara úr jörðu. Fylgst hafi verið náið með svæðinu.

Ljósmynd/Búi Baldvinsson
mbl.is