Stefnir í afléttingar eftir viku

Þórólfur og Svandís.
Þórólfur og Svandís. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, um að slaka ekki á sóttvarnaráðstöfunum að sinni og að framlengja núgildandi reglugerð um viku, er í samræmi við minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

Þórólfur staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

„Við erum að komast út úr þessum nokkuð mörgu hópsmitum sem hafa verið í gangi hér undanfarið, og erum samt enn að greina fólk utan í sóttkvíar, eins og í gær til dæmis. Ég held það sé bara ráðlagt að fara aðeins rólega í þetta, heldur en að fara af stað núna og fá þetta aftur í bakið.

Það er reynslan okkar af því hvernig við fórum út úr þriðju bylgjunni, og ég held að við nýtum okkur það.“

Tengdist fyrri sýkingu

Sex smit greindust innanlands í gær og þar af var einn utan sóttkvíar við greiningu. Aðspurður segir Þórólfur að viðkomandi tengist fyrri sýkingu en smitið hafi ekki komið upp við rakningu.

Ef þróunin núna heldur áfram, þá ætti að vera fínt rými fyrir afléttingar eftir viku?

„Mér finnst það. Ef þetta gengur bara mjög vel og ef við sjáum að þetta heldur svona áfram, þó að við höfum fundið einn í gær þá er það ekkert voða mikið. Ef þetta heldur svona lítið áfram þá eigum við að geta farið í afléttingar.

Við erum búin að koma þessum landamæramálum á og þá eigum við að hafa allar forsendur til að geta slakað meira á hér innanlands. Ég held að það gangi bara eftir og við eigum að vera tilbúin í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert