Tillögu um sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða hafnað

Frá fundi í borgarstjórn Reykjavíkur í haust.
Frá fundi í borgarstjórn Reykjavíkur í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Tillögu Sjálfstæðisflokksins um að Malbikunarstöðin Höfði yrði sett í söluferli var vísað frá í borgarstjórn í kvöld. Í tillögunni segir að eignarhald borgarinnar á Malbikunarstöðinni skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja á sama markaði, sem samræmist ekki sjónarmiðum um heilbrigða samkeppni.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, sagði í ræðu sinni að það væri skrýtið að flokkar sem töluðu um forgangsröðun í þágu félagslegra úrræða skyldu vilja setja peningana í malbikunarstöð.

„Það er líka skrýtið að flokkur eins og Viðreisn skuli vilja halda í Malbikunarstöðina. Og það er stórundarlegt að þessir fjórir flokkar sem gerðu málefnasamning, sem heitir því undarlega nafni meirihlutasáttmáli, þar sem að stendur að það eigi að skoða sölu á Malbikunarstöðinni Höfða, hafi ekkert gert í því í þrjú ár,“ sagði Eyþór m.a. í ræðu sinni. 

Eyþór bætti við að nú væri tækifæri fyrir borgarstjórn að sameinast um að létta byrðar á Reykvíkingum áður en hún kæmi samstæðu borgarinnar í enn frekari skuldir, en borgin ráðgerir að flutningarnir kosti tæplega tvo milljarða króna. Þá væri sú þögn sem ríkti í kringum Malbikunarstöðina undarleg.

„Það er undarleg þögn í kringum þetta mál, eina sem við höfum frétt er að Höfði hafi verið í vandræðum með framleiðslu sína og síðan var skipt um stjórnarformann og engar sérstakar skýringar gefnar á því. En við höfum ekkert fengið að vita hvað á að gera,“ sagði Eyþór og bætti við að borgarfulltrúarnir 23 í borgarstjórn og Reykvíkingar sjálfir ættu heimtingu á því að vita hver áætlun borgarstjórnar væri í kringum Malbikunarstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert