Bar að stöðva umferð vegna ófullnægjandi malbiks

Um 1,8 km kafli vegarins hafði verið malbikaður þremur dögum …
Um 1,8 km kafli vegarins hafði verið malbikaður þremur dögum fyrir slysið. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir í nýrri skýrslu að verktaki, sem var tímabundinn veghaldari á Vesturlandsvegi, hafi átt að stöðva umferð um veginn þegar grunur var uppi að nýlagt malbik uppfyllti ekki kröfur um vegviðnám, en blæðinga varð vart strax um morguninn eftir lögnina. Í skýrslunni er fjallað um banaslys sem varð síðdegis á Vesturlandsvegi í júní á síðasta ári. Þar lést 54 ára gamall karlmaður og 53 ára gömul kona. 

Stórir feitir blettir í hjólförum akreina

Fram kemur, að á slysdegi hafi miklar blæðingar sést á vegkaflanum þar sem slysið varð en vegviðnámið var ekki mælt fyrr en daginn eftir slysið. Stórir feitir blettir voru í hjólförum akreina í báðar áttir og regnvatn á veginum jók enn á hálkuna og hættu á slysum, að því er segir í skýrslunni.

Þann 28. júní í fyrra var fjórum bifhjólum ekið suður Vesturlandsveg. Ökumaður fremsta hjólsins missti stjórn á hjóli sínu á hálu nýlögðu malbiki og féll hjólið í götuna. Auk ökumanns var einn farþegi á hjólinu og runnu hjólið, ökumaðurinn og farþeginn yfir á rangan vegarhelming framan á bifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt. Bæði ökumaður og farþegi bifhjólsins létust í slysinu. Ökumaður næstfremsta bifhjólsins missti einnig stjórn á hjóli sínu vegna ástands malbiksins. Hann rann út af veginum og slasaðist. 

Mynd tekin um kl. 9 föstudagsmorguninn við vigtarplanið við Blikdalsá. …
Mynd tekin um kl. 9 föstudagsmorguninn við vigtarplanið við Blikdalsá. Talsverðar blæðingar má greina á myndinni. Ljósmynd/Vegagerðin

Malbiksframleiðsla stóðst ekki gæðakröfur

Rannsóknarnefndin beinir í sinni skýrslu þeirri tillögu til Samgöngustofu að hún taki til skoðunar hvort þörf sé á bindandi reglum um öryggisúttektir að loknum viðhalds- og nýframkvæmdum á vegum. 

Þá segir nefndin að malbiksframleiðsla hafi ekki staðist gæðakröfur og er þeirri tillögu beint til framleiðanda malbiksins að yfirfara alla verkferla og gæðaeftirlit með malbiksframleiðslu sinni.

„Framleiðsla Malbikunarstöðvarinnar uppfyllti ekki kröfur útboðsgagna. Vandamál vegna blæðinga komu jafnframt fram á mánudegi, sex dögum fyrir slysið í öðrum malbikunarframkvæmdum vegna sama útboðs og voru viðvarandi alla vikuna. Að mati RNSA var ekki framkvæmd fullnægjandi greining á orsökum þessara blæðinga í malbikinu þrátt fyrir að vandamálið hafi ítrekað komið upp,“ segir í skýrslunni. 

Mynd tekin í akstursátt húsbifreiðarinnar af vettvangi slyssins. Malbiksblæðingar eru …
Mynd tekin í akstursátt húsbifreiðarinnar af vettvangi slyssins. Malbiksblæðingar eru áberandi í hjólförum á báðum akreinum. Ljósmynd/RNSA

Ber að stöðva útlögn tafarlaust séu feitir blettir stærri en 5 m²

Nefndin beinir jafnframt þeirri tillögu til verktakans að yfirfara verkferla sína og gæðakerfi við malbikunarframkvæmdir. 

„Í útboðsgögnum kemur fram að ef feitir blettir á yfirborði útlagnar eru samtals stærri en 5 m² skal verktaki tafarlaust stöðva útlögn. Kanna skal ástæður og gera viðeigandi umbætur áður en áfram er haldið. Ekkert í rannsókn málsins bendir til að þessu ákvæði útboðsins hafi verið fylgt. Gæðastjórnunarkerfi hafa það að markmiði að allar aðgerðir framleiðslunnar séu kerfisbundnar og auðraktar. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði við rannsóknina voru samskipti verktaka og framleiðenda malbiksins um hver rúmþyngdin ætti að vera ekki skráð né voru framkvæmdar mælingar á feitum blettum sem sáust strax eftir útlögn,“ segir ennfremur í skýrslunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert