„Eigum hvergi heima nema á örfáum hjólastígum“

Bjarni Már segir að uppbygging hjólreiðasvæðis væri ákjósanleg fyrir öryggi …
Bjarni Már segir að uppbygging hjólreiðasvæðis væri ákjósanleg fyrir öryggi barna og ungmenna og myndi þannig skapa innviði sem þurfi fyrir þann hóp. mbl.is/Þorsteinn

Á hverju ári keppa nokkur hundruð manns í formlegum bikar- og Íslandsmótum í hjólreiðum hér á landi. Til viðbótar við það bætast hundruð og jafnvel þúsundir sem keppa í mótum Hjólreiðasambands Íslands eða taka þátt í hjólaviðburðum. Undanfarin ár hefur fjölgað í barna- og unglingastarfi hjólreiðafélaganna, en þó er eitt sem vantar þar og það er aðstaða þannig að hægt sé að æfa hjólreiðar árið um kring sem jafnframt gæti orðið að samastað hjólreiðaíþróttarinnar, hvort sem það væru götu- eða fjallahjólreiðar.

Bjarni Már Svavarsson, formaður Hjólreiðasambands Íslands, segir í samtali við mbl.is að á næstu árum myndi hann vilja sjá fyrstu skrefin í átt að því að byggja upp æfingasvæði hjólreiða með það að markmiði að geta haft innanhússæfingasvæði.

Byrjað verði á BMX-svæði

Svokölluð reiðhjólahöll (e. velodrome) er meðal annars notuð fyrir brautarhjólreiðar (e. track cycling) sem keppt er í á Ólympíuleikum og er algeng uppeldisstöð fyrir götuhjólreiðar. Bjarni segir hins vegar að til að byrja með telji hann rétt að horfa til uppbyggingar á einhverskonar BMX-hjólreiðasvæði. Slík svæði eru jafnan með uppbyggðum palli þar sem ferðin hefst og svo er farið í gegnum þrautabraut með misháum hólum eða stökkum og í gegnum nokkrar krappar beygjur. Svæðið í heild er á við eitt íþróttahús að stærð.

Bjarni bendir á að aðstaða sem þessi myndi gera allt barna- og ungmennastarf mun ákjósanlegra í stað þess að vera t.d. með yngri krakka á götunni eða göngustígum. Þá sé líka BMX-braut líklegri til að heilla yngri kynslóðina sem svo færist jafnvel yfir í aðrar hjólagreinar eftir því sem aldurinn aukist.

Dæmi um braut fyrir BMX-hjól samkvæmt stöðlum Alþjóðahjólreiðasambandsins. Ein braut …
Dæmi um braut fyrir BMX-hjól samkvæmt stöðlum Alþjóðahjólreiðasambandsins. Ein braut passar innan hefðbundins knattspyrnuvallar Teikning/UCI

Bjarni segir að slíkt svæði gæti til að byrja með verið utandyra, en svo væri hægt að yfirbyggja, ekki ósvipað því sem gert var með skautahöllina þar sem stálgrind var sett yfir skautasvellið nokkrum árum eftir að svellið sjálft var byggt.

Með svæði sem þessu segir Bjarni líka að það yrði til samastaður fyrir hjólreiðafólk og gæti virkað sem bæði aðdráttarafl og útgangspunktur fyrir fleiri greinar hjólreiðanna, svo sem fjallahjólreiðar eða hjólakross (e. cyclocross).

Hjólreiðahöll lengra á sjóndeildarhringnum

„Þetta er klárlega eitthvað sem þarf að fara að vinna í. Þrýsta á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að fara að fá svona aðstöðu. Það myndi skipta alveg gríðarlega miklu máli,“ segir Bjarni og segir að sér fyndist eðlilegt að horfa til þess að reyna að koma upp BMX-svæði á næstu 3-5 árum og svo að horfa til lengri tíma, t.d. 5-10 ára, með að byggja upp hefðbundna hjólreiðahöll.

.„Við eigum hvergi heima nema á örfáum hjólastígum,“ segir Bjarni, spurður um frekari rök fyrir uppbyggingu á hjólreiðahöll. Vísar hann þar til árlegs rígs sem birtist meðal annars á samfélagsmiðlum á vorin þegar fleiri og fleiri fara út að hjóla og hjólreiðahópar verða sýnilegri á götum borgarinnar. „Svona svæði þar sem hægt væri að vera út af fyrir okkur myndi minnka þetta rifrildi sem verður á hverju ári.“

Bjarni bendir á að þróunin í þessu hafi verið nokkuð hröð víða og til dæmis í Noregi hafi engin innanhússhjólreiðahöll verið fyrir nokkrum árum, en svo hafi á stuttum tíma verið farið í að byggja fjórar slíkar hallir.

Taki að sér ákveðið útivistarsvæði fyrir fjallahjólreiðar

Fjallahjólreiðar hafa verið í miklum vexti undanfarið á Íslandi og Bjarni segir að sú grein eigi ekki að vera undanskilin því að fá sitt pláss. Þannig segir hann að eðlilegt væri að hjólreiðafólk fengi ákveðið svæði á útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins, t.d. í einhverju skóglendinu, þar sem hjólreiðafólk myndi bera ábyrgð á viðhaldi og grisjun og gæti þar komið upp eigin leiðum. Segir hann slíkt vel þekkt á Norðurlöndum og að slíkt gæti jafnvel verið tengt við uppbyggingu innanhússhjólreiðasvæðis ef ákveðið væri að hafa slíkt svæði við Hólmsheiði eða efri byggðir höfuðborgarsvæðisins.

 Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins 30. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »