Eykur kostnað um 10-15%

Hjúkrunarheimili. Stytting vinnuvikunnar hækkar launakostnað.
Hjúkrunarheimili. Stytting vinnuvikunnar hækkar launakostnað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við óttumst að þetta muni kosta meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Það var ekki á það bætandi að fá hærri launakostnað ofan á rekstur sem þegar gekk ekki,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Stjórn Sambandsins fjallaði um Gylfaskýrsluna svokölluðu um rekstrarkostnað hjúkrunarheimila á dögunum. „Þegar tekið er tillit til framlags frá sveitarfélögum sem var tæpur 1 ma.kr. og afturvirkra launahækkana vegna kjarasamninga er halli heimilanna samtals 2,7 ma. kr. árið 2019. Að auki dregur skýrslan fram mönnunarvanda heimilanna, en þau ná hvorki að uppfylla lágmarksviðmið Embættis landlæknis um umönnunarklukkustundir né samsetningu fagstétta við umönnun,“ segir í bókuninni.

Þar segir enn fremur að til að ná lágmarksviðmiðum um umönnunarklukkustundir þyrfti aðra þrjá milljarða í reksturinn. Þá sé fyrirséð að stytting vinnuviku vaktavinnufólks, sem tók gildi um síðustu mánaðamót, muni auka launakostnað um 10-15%. „Óþarft á að vera að minna á að heilbrigðisþjónusta er á ábyrgð ríkisins. Það er skýlaus krafa stjórnar sambandsins að daggjöld hjúkrunarheimila verði hækkuð strax í samræmi við niðurstöður þessarar skýrslu og þá kostnaðarhækkun sem fylgir styttingu vinnutíma vaktavinnufólks,“ segir í bókuninni.

Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, sagði við Morgunblaðið á laugardag að stytting vinnuviku vaktavinnufólks hefði í för með sér mörg hundruð milljóna króna útgjöld sem leiðrétta þyrfti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert