Hættir í Hallgrímskirkju

Hörður Áskelsson.
Hörður Áskelsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mótettukórinn undir stjórn Harðar Áskelssonar fagnar upphafi 40. starfsárs síns með því að flytja Jólaóratóríuna eftir J.S. Bach í Eldborg í Hörpu 28. nóvember. Með kórnum leikur Alþjóðlega barokksveitin og einsöngvarar eru Benedikt Kristjánsson tenór, Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Alex Potter kontratenór og Jóhann Kristinsson bassi. Skipuleggjendur tónleikanna hlutu nýverið styrk frá Styrktarsjóði Samtaka um byggingu tónlistarhúss og Ruthar Hermanns.

Hörður Áskelsson undirritaði fyrir helgi starfslokasamning sem bindur enda á 39 ára starfsferil hans í Hallgrímskirkju og verður síðasti starfsdagur hans í kirkjunni hinn 31. maí nk. „Þessu fylgja blendnar tilfinningar, sorg yfir því að hafa ekki notið trausts til að ljúka starfsferlinum á eigin forsendum og gleði yfir því frelsi, sem fylgir því að losna úr tengslum við fólkið, sem nú fer með öll völd í kirkjunni,“ skrifar Hörður í tölvupósti til Listvina. Í póstinum segir einnig: „Í þrjú ár hefur listastarf Hallgrímskirkju búið við vaxandi mótbyr frá forystu safnaðarins, sem smám saman hefur rænt mig gleði og starfsorku. Ekki hefur tekist að finna lausn á þeim vanda sem upp var kominn. Forsvarsfólk Hallgrímskirkju hefur kosið að víkja mér úr starfi kantors Hallgrímskirkju með starfslokasamningi, sem ég get ekki annað en sætt mig við,“ skrifar Hörður og tekur fram að báðir kórar hans, Mótettukórinn og Schola cantorum, fylgi honum enda bíði mörg spennandi verkefni. Hvað Listvinafélag Hallgrímskirkju áhræri bíði sú áskorun að finna félaginu nýjan farveg.

Í tilkynningu á vef Hallgrímskirkju skrifar Einar Karl Haraldsson formaður sóknarnefndar að Hörður hafi sjálfur lagt „fram ósk um hreinan starfslokasamning, eftir að hafa hafnað „heiðurssamningi Hallgrímskirkju“ [...] Meginefni tillögunnar um samninginn voru greiðslur í samræmi við heiðurslaun listamanna frá Alþingi til tveggja ára og sérstakir styrkir til frjálsrar ráðstöfunar [Harðar] persónulega vegna þriggja uppfærslna á stórvirkjum kirkjutónlistarsögunnar. Um leið væri um starfslok hans sem organista að ræða og hann væri án stjórnunar- eða sérstakrar vinnuskyldu við kirkjuna á tímabili heiðurslauna. Engin takmörk voru lögð á vinnu hans að öðru leyti með Mótettukór Hallgrímskirkju, Listvinafélagi Hallgrímskirkju og Schola cantorum, samkvæmt þessum samningshugmyndum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »