Hraunið mun heita Fagradalshraun

Landeigendur höfðu mælt með nafninu.
Landeigendur höfðu mælt með nafninu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæjarráð Grindavíkurbæjar hefur lagt það til við bæjarstjórnina að hraunið, sem runnið hefur úr gosstöðvunum í og við Geldingadali, fái nafnið Fagradalshraun.

Fannar Jónasson bæjarstjóri staðfestir þetta í samtali við mbl.is og segir að síðar í mánuðinum muni bæjarstjórn koma saman og væntanlega samþykkja tillöguna. Aðspurður segir hann að einhugur hafi verið um nafngiftina á meðal bæjarfulltrúa, en einnig kom til greina að nefna hraunið Fagrahraun.

„Þetta er líka nafn sem landeigendur höfðu mælt með. Örnefnanefnd fór svo yfir þessar tvær tillögur og sá ekkert því til fyrirstöðu að nota þessi nöfn.

Spurður hvort ekki hafi flækst fyrir við nafngiftina, sú staðreynd að Fagridalur sjálfur sé norðvestan megin í fjallinu og því ekki við gosstöðvarnar sjálfar, kveður hann nei við.

„Fagradalsfjall er í raun nafn yfir víðáttumikið fjallasvæði á þessum slóðum, og nær yfir fjöll og dali. Þetta er því svolítið samheiti, má segja.“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búa sig undir að ferðamönnum fjölgi

Lífið í Grindavík er gott um þessar mundir, á skjálftalausum sólardögum.

„Það gengur ágætlega hjá okkur að fást við þetta stóra verkefni, með dyggri aðstoð fjölda fólks og stofnana. Við erum ekki að glíma við jarðskjálftana núna og það er mjög ánægjulegt. Það er fallegt veður og margir sem koma til okkar,“ segir Fannar.

„Við erum að reyna að bæta aðgengi núna að gosstöðvunum. Það hafa orðið óhöpp á göngustígunum í brekkunum og það á að reyna að bæta um betur.“

Bæjaryfirvöld búa sig svo undir fyrirsjáanlega fjölgun ferðamanna þegar líður á sumarið.

„Við heyrum að það er mikill áhugi og fjöldi bókana á gistingu. Mikið um fyrirspurnir og allt sem bendir til að aðsókn verði meiri.

Við erum að vinna að því með Ferðamálastofu, Umhverfisstofnun, Reykjanesjarðvangi og Áfangastofu Reykjaness að veita sem bestar upplýsingar um svæðið, þeim sem koma hingað. Svo eru það bara aðilar í ferðaþjónustu sem taka við og sjá vel um sína gesti.“

mbl.is