Magnaður eldhvirfill reis upp úr hrauninu

Theodór Kr. Þórðarson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn og fréttaritari Morgunblaðsins, festi á myndskeið í nótt magnaðan eldhvirfil sem reis upp úr hraunánni í Fagradalsfjalli.

Í samtali við mbl.is segir Theodór að atvikið hafi mest minnt á stórkostlega flugeldasýningu.

Þetta var í fyrsta sinn sem hann lagði leið sína að gosinu og hóf förina um klukkan níu í gærkvöldi. Myndskeiðinu náði hann svo um klukkan fjögur um nóttina.

„Manni stóð ekki alveg á sama“

„Þar sem við stóðum og horfðum á sjálft gosið þá fór ég að heyra einhver hviss neðar í hraunánni. Ég hafði áður séð stutt myndskeið af þessu fyrirbæri og grunaði hvað var á seyði. En þetta var sá allra stærsti sem við sáum, og líka sá eini sem ég náði nokkurn veginn frá upphafi til enda. Svo fylgdu nær engir eftir þetta.“

Þessi eldhvirfill hafi líka náð að taka mun meira með sér af yfirborði hraunsins.

„Hann færðist svo á móti straumnum og þeytti frá sér þessum stóru hraunflygsum. Manni stóð ekki alveg á sama þegar það leit út fyrir að hann ætlaði lengra upp. En þetta var svo bara eins og einkasýning fyrir okkur sem vorum þarna.

Svo var þetta bara búið.“

Titringur undir niðri

Theodór segir að það sé eitt að horfa á gosið í vefmyndavélum og annað að vera á staðnum.

„Þó maður myndi þetta í bak og fyrir þá nær maður aldrei að fanga þessa nánd. Svo fundum við fyrir titringnum undir niðri þar sem við sátum í brekkunni. Þannig að maður var mjög meðvitaður um hvað er að gerast. Maður var alveg uppnuminn, ef satt skal segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert