„Mamma, hún er gift Mogganum“

Agnes Bragadóttir stóð í framlínu íslenskrar fjölmiðlunar í áratugi.
Agnes Bragadóttir stóð í framlínu íslenskrar fjölmiðlunar í áratugi. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson (HSG)

Þegar börn Agnesar Bragadóttur, sem þá var fráskilin, voru spurð hvort hún ætlaði ekki að gifta sig aftur voru þau snögg til svars: „Mamma, hún er gift Mogganum.“

Þetta rifjar Agnes upp í áhugaverðu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála sem nú er komið út. Þar rifjar hún upp mörg minnisverð tíðindi af löngum blaðamannsferli sínum og upplýsir m.a. að í fyrsta sinn sem hún sótti um starf á Morgunblaðinu hafi Styrmir Gunnarsson, þáverandi ritstjóri blaðsins, einfaldlega sagt: „Nei, takk.“

Forsíða Þjóðmála að þessu sinni.
Forsíða Þjóðmála að þessu sinni.

Nokkrum árum síðar, eftir störf á Tímanum, réð Styrmir Agnesi til starfa og áttu þau áratugalangt samstarf fyrir höndum.

Yfirgangssöm og ákveðin

Agnes lét af störfum hjá Morgunblaðinu árið 2019 en hefur greinilega engu gleymt. Þegar Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri og útgefandi Þjóðmála, spyr hana út í skapferlið stendur ekki á svari:

„Ég er yfirgangssöm, ákveðin og mér er sagt að ég sé frek. Mér er líka sagt að ef ég væri karlmaður væri ég sagður vera staðfastur og ákveðinn. En af því að ég sé kona sé ég gribba og frekja. Ég heyrði það allan minn starfsferil og jafnvel enn í dag. En það fer inn um annað og út um hitt, ég tek það ekki nærri mér og er ekki viðkvæm fyrir því. Afrakstur minn sem blaðamaður talar sínu máli.“

mbl.is