Misræmi í upplýsingum um virkni bóluefna

Lyfjastofnun vísar til rannsókna sem Lyfjastofnun Evrópu mat.
Lyfjastofnun vísar til rannsókna sem Lyfjastofnun Evrópu mat.

Vart hefur orðið við óánægju á meðal sumra í þjóðfélaginu, yfir því að bóluefni lyfjaframleiðandans AstraZeneca veiti aðeins um 60% vörn gegn kórónuveirunni, á sama tíma og bóluefni Pfizer veitir 95% vörn við sömu veiru.

Þessar upplýsingar um virkni bóluefnanna tveggja má finna á vef Lyfjastofnunar, en í báðum tilfellum er átt við virkni þeirra eftir að tveir skammtar hafa verið gefnir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir aftur á móti í samtali við mbl.is um þetta, að bóluefni AstraZeneca veiti í raun 85% vörn við kórónuveirunni, eftir að seinni skammtur af tveimur hefur verið gefinn, en ekki 60% eins og segir á vef Lyfjastofnunar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samanburður út í hött

„Það er 85% vörn hjá AstraZeneca eftir seinni skammtinn, sem er þremur mánuðum eftir þann fyrri, og það er líka 90-95% vörn hjá Pfizer eftir seinni bólusetninguna. Þannig að það er sáralítill munur eftir fyrstu bólusetningu AstraZeneca og Pfizer,“ segir Þórólfur, spurður hvort ástæða sé fyrir fólk til að hafa áhyggjur af þessu.

„Í Bandaríkjunum eru að koma niðurstöður úr rannsóknum á AstraZeneca, sem sýna að ef seinni skammtur er gefinn mánuði eftir þann fyrri þá fáist 80% virkni.

Þannig að þetta eru bara sambærileg bóluefni en hafa verið rannsökuð á mismunandi máta. Ég held það sé algjörlega út í hött að vera með einhvern samanburð á virkninni þannig að annað sé eitthvað betra en hitt. Þetta eru bara mjög sambærileg bóluefni.

Það hefur sýnt sig í Bretlandi, þar sem þetta er langmest notaða bóluefnið, hvernig það hefur minnkað faraldurinn þar. Þetta á því ekki alveg við rök að styðjast.“

Fólk á ferð í Lundúnum. Þórólfur bendir á að bóluefni …
Fólk á ferð í Lundúnum. Þórólfur bendir á að bóluefni AstraZeneca hafi hjálpað til við að kveða niður faraldurinn þar í landi. AFP

Virknin í klínískum rannsóknum

Í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn mbl.is, um hvort þarna kunni að vera misræmi á vef stofnunarinnar, segir að uppgefin tala upp á 60% virkni sé „sú virkni sem reyndist vera í þeim klínísku rannsóknum sem lágu til grundvallar samþykktar bóluefnisins í EES-ríkjum“.

Virknin hafi verið metin út frá niðurstöðum tveggja af fjórum rannsóknum sem komu til mats Lyfjastofnunar Evrópu.

„Í hinum tveimur rannsóknunum voru færri en sex tilfelli COVID-19 í hvorri rannsókn fyrir sig en það er ekki nægjanlegur fjöldi til að leggja mat á verndandi áhrif bóluefnisins.“

Sprautur með bóluefni AstraZeneca bíða beitingar.
Sprautur með bóluefni AstraZeneca bíða beitingar. AFP

Veiti vörn gegn alvarlegum sjúkdómi

Einnig er bent á í svarinu að mjög mikilvægt sé að hafa í huga að öll bóluefnin sem notuð séu hér á landi veiti mjög góða vörn gegn alvarlegum sjúkdómi af völdum veirunnar.

Heldur svarið áfram:

„Í samantekt á eiginleikum lyfs fyrir AstraZeneca (bls. 8) má t.a.m. sjá að enginn í fullbólusettum hópi lagðist inn á sjúkrahús vegna COVID-19 sjúkdóms samanborið við að í óbólusettum hópi af sömu stærð lögðust 8 inn á sjúkrahús (0,2% af hópnum) vegna alvarlegra COVID-19 veikinda.

Sömu sögu var að segja fyrir þá sem fengið höfðu fyrri bólusetningu; enginn sem fengið hafði fyrri bólusetningu lagðist inn á sjúkrahús vegna COVID-19 sjúkdóms, samanborið við 14 einstaklinga í óbólusettum hópi af sömu stærð (0,2% af hópnum) og þar af var eitt dauðsfall.

Til að setja hlutina í enn betra samhengi, er virkni bóluefna gegn inflúensu oft á bilinu 30-60%.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert