Misstu barn og segja kerfið hafa brugðist

Kvennadeild Landspítalans.
Kvennadeild Landspítalans. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Jónsdóttir gagnrýnir heilbrigðiskerfið í færslu sem hún birti á Facebook eftir að hún missti barn á meðgöngu. Magnús Kjartan Eyjólfsson, maðurinn hennar, vonar að reynslusaga þeirra verði til þess að verkferlum verði breytt í framhaldinu.

Í færslunni segist Sigríður vera ósátt við að hvorki hún né Magnús Kjartan hafi fengið áfallahjálp eða álíka aðstoð eftir að henni var tilkynnt um að hún hefði misst barnið.

Einnig gagnrýnir hún harðlega að henni hafi verið sagt að bíða fram yfir helgi eftir því að fara í gangsetningu.

„Mig skal ekki undra að geðheilbrigðiskerfið sé hrunið og brunarústir einar ef þetta er úrvinnsla erfiðra mála hjá heilbrigðiskerfinu. Hvernig á fólk að komast út úr svona reynslu í heilu lagi ef þetta er það sem fólk þarf að upplifa,” skrifar Sigríður og bætir við:

„Hvernig er hægt að réttlæta þá meðferð að senda okkur heim til þess eins að bíða eftir því að það komi mánudagur til þess að fæða dóttur okkar?”

Endurtaki sig ekki 

Sigríður spyr hvers vegna kerfið hafi brugðist þeim svona illa og nefnir að það sem þau lentu í megi ekki endurtaka sig. „Er álagið á kerfinu orðið svo mikið að starfsfólk innan þess er búið að missa þá tilfinningu að sýna samkennd? Er mannlegi þátturinn horfinn?” skrifar hún.

„Hvernig er hægt að leggja það á fólk að vera heima með dáið barn í maganum yfir helgi?”

Magnús Kjartan og Sigríður vonast til að verkferlum verið breytt …
Magnús Kjartan og Sigríður vonast til að verkferlum verið breytt hjá Landspítalanum. Ljósmynd/Aðsend

Hafa fengið reynslusögur frá öðrum 

Í samtali við mbl.is segir Magnús Kjartan að viðbrögðin við færslu Sigríðar hafi verið talsvert meiri og sterkari en þau bjuggust við. Það sýni vel að brotalamir séu í kerfinu.

„Fólk hefur verið að senda okkur reynslusögur sem segir okkur að þetta er greinilega búið að vera viðvarandi ástand í einhvern tíma og það er óásættanlegt. Við, sem betur fer, erum þokkalega sterkir einstaklingar með mjög sterkt bakland en það eru það ekki allir,” segir Magnús Kjartan en þau eru búsett á Laugarvatni og eiga fyrir fjögur börn.

Hann hefði sjálfur þegið áfallahjálp hefði hún verið í boði. „Þetta var nánast í eina skiptið sem ég hef ekki farið með henni í mæðraverndina og það að hún skyldi sitja ein út á bílaplani í klukkutíma, það var fyrst alvöru sjokkið. Að bæta því ofan á sorgina, það er óásættanlegt aukaálag,” segir hann.

Dæmi um einnar viku bið

Varðandi það að þurfa að fara heim yfir helgi með látið barn í maganum segist hann hafa heyrt sögur um að fólk hafi þurft að bíða í allt að eina viku eftir því að fara í gangsetningu. Slíkt sé óboðlegt.

„Þegar þetta kemur upp hjá okkur er eins og það fari einhver sjálfsstýring í gang á spítalanum, eins og eitthvað klínískt sem þarf að klára. Mannlega þættinum er nánast gleymt,” greinir hann frá en ítrekar að þau séu ekki að ráðast á starfsfólkið sjálft. Það hafi yfirhöfuð reynst þeim ákaflega vel.

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ljósmóðir baðst afsökunar

Spurður segist hann ekki hafa fengið viðbrögð frá Landspítalanum eftir að færslan birtist en bendir á að ljósmóðir sem Sigríður talar um í færslunni hafi haft samband við þau, beðist afsökunar og viðurkennt að hún hefði getað gert betur í þeirra tilviki. Kunnu þau vel að meta það.

Hvernig líður ykkur núna?

„Maður tekur einn dag í einu. Sérstaklega eftir færsluna í gær var eins og það væri ákveðnu fargi af okkur létt en við þurftum að segja frá þessu,” segir Magnús og bætir við að núna séu þau að undirbúa jarðarför. Það taki sinn tíma.

Hann vonast til þess að umræðan um þessi mál verði til þess að verkferlar verði athugaðir í framhaldinu og að eitthvað grípi fólk sem lendi í álíka áföllum.

Deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans sagði spítalann ekki getað tjáð sig um einstaka mál þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við færslu Sigríðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert