Slökkvistarfi lokið í Heiðmörk

Sinueldar í Heiðmörk.
Sinueldar í Heiðmörk. mbl.is/Árni Sæberg

Slökkvistarfi lauk í Heiðmörk um fjögur í nótt en um 80 slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistarfinu auk fjölda lögreglumanna, björgunarsveitarfólks og fleiri viðbragðsaðila. Slökkvistarfið tók um tólf tíma og voru öll tæki slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins nýtt í baráttunni við eldinn.

Ekki er vitað nákvæmlega hversu stórt svæði varð eldinum að bráð en í Morgunblaðinu í dag er talað um minnst 5 hektara skóglendis. 

Óttast varðstjóri í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins frekari sinueld næstu daga þar sem ekki er spáð rigningu næstu daga á suðvesturhorni landsins. Mjög þurrt hefur verið undanfarið og ekki komið dropi úr lofti á þessu svæði í marga daga en apríl var mjög þurr. 

Þegar mest lét voru yfir 60 slökkviliðsmenn að störfum og annað eins frá björgunarsveitum en tilkynnt var un eldinn klukkan 15:20. Að sögn varðstjóra var starfi slökkviliðsins að mestu  lokið um eitt í nótt en vakt var á svæðinu til fjögur í nótt til að tryggja að eldurinn blossaði ekki upp aftur.

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands varar við því að gróður er nú mjög þurr sunnan- og vestanlands og ekki útlit fyrir vætu næstu daga. „Vegna hættu á gróðureldum er því mikilvægt að fara mjög varlega með eld.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug 17 ferðir og sótti vatn úr nærliggjandi vötnum til að dreifa yfir eldinn. Í gærkvöldi bilaði síðan búnaður þyrlunnar og hefur ekki tekist að ljúka viðgerð á honum samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni í morgun. 

mbl.is