Stálu þjórfé starfsfólks

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Lögreglan hafði afskipti af tveimur mönnum síðdegis í gær sem eru grunaðir um þjófnað í miðborginni (hverfi 101). Mennirnir komu inn á veitingastað og stálu krukku sem í var þjórfé starfsfólks veitingastaðarins.  Ekki er vitað nákvæmlega hve há upphæðin var sem mennirnir stálu að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Skömmu áður hafði verið tilkynnt um mann í annarlegu ástandi við veitingastað í sama borgarhluta sem áreitti viðskiptavini og öskraði á starfsfólk og viðskiptavini staðarins. Maðurinn var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Starfsfólk verslunar í Austurbænum (hverfi 103) leitaði til lögreglu um sexleytið í gær vegna manns sem var að skemma umbúðir af ilmvatni í versluninni. Í fyrstu var talið að maðurinn hafi ætlað að stela ilmvatninu að því er segir í dagbók lögreglu en maðurinn var kærður fyrir eignaspjöll.

Ekið var á konu á reiðhjóli í Austurbænum (hverfi 108) síðdegis í gær og kvartaði hún um verk í baki. Ekki kemur fram í dagbók lögreglunnar hvort flytja þurfti konuna á bráðamóttöku Landspítalans.

Ofurölvi maður var handtekinn í Austurbænum (hverfi 105) á áttunda tímanum í gærkvöldi. Maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu og var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Á rúmum hálftíma í kringum miðnætti voru þrjár bifreiðar stöðvaðar eftir hraðamælingu á Kringlumýrarbraut.  Ökumenn bifreiðanna  eru grunaðir um of hraðan akstur og var hraði bifreiðanna mældur 113 km/klst., 121 km/klst. og 108 km/klst. en leyfður hámarkshraði er 80 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert