Stjórnvöld bregðist við verðbólguskoti

Hagsmunasamtök heimilanna vilja að ríkisstjórnin efni loforð sitt um að …
Hagsmunasamtök heimilanna vilja að ríkisstjórnin efni loforð sitt um að vernda heimilin í landinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hagsmunasamtök heimilanna hafa skorað á ríkisstjórnina að efna loforð um að bregðast við til varnar heimilunum vegna þess verðbólguskots sem nú er skollið á þeim, ásamt því að afnema verðtryggingu lána heimilanna.

Í tilkynningu benda samtökin á að síðan í mars í fyrra hafi þau varað við fyrirsjáanlegu verðbólguskoti og áhrifum vegna þess á húsnæðisskuldir heimilanna. Sú áhætta hafi núna raungerst og verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað verulega.

„Samtökin minna því á kröfur sínar frá því í mars í fyrra sem reyndar voru líka ítrekaðar í september, um að heimilin yrðu varin fyrir hækkun verðtryggðra skuldbindinga sinna vegna verðbólgu af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru,” segir í tilkynningunni.

Traustið brostið

„Í báðum tilfellum var kröfum HH svarað með því að benda á að ekki væri útlit fyrir mikla verðbólgu og það að setja þak á verðtryggingu lána heimilanna, gæti grafið undan trausti á því að Seðlabankanum tækist það markmið sitt að halda verðbólgu í skefjum. Þrátt fyrir þær yfirlýsingar hefur verðbólga meira en tvöfaldast síðan þá og farið langt yfir verðbólgumarkmið stjórnvalda. Ef eitthvað traust var til þess að Seðlabankanum tækist að halda verðbólgu í skefjum er því ljóst að það er algjörlega brostið og fyrrnefnd rök því fallin um sig sjálf,” segir þar einnig.

Bætt er við að einu svör fjármálaráðherra við ítrekuðum fyrirspurnum um hvað yrði um verðtryggð lán heimilanna í verðbólguskoti hafi verið að hann hefði engar áhyggjur af verðbólguskoti.

Samtökin benda á að hægt sé að setja þak á verðtryggingu lána heimilanna og afleiðinga verðbólguskotsins.

mbl.is