Tvær konur stíga fram og saka Sölva um ofbeldi

Sölvi Tryggvason.
Sölvi Tryggvason. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tvær konur hafa stigið fram og greint frá að hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu Sölva Tryggvasonar dagskrárgerðarmanns og hefur önnur konan kært hann til lögreglu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögfræðingur kvennanna sendi frá sér og fjallað var um á vef Fréttablaðsins.

Í yfirlýsingunni segir að önnur kvennanna hafi orðið fyrir meintu ofbeldi á heimili sínu hinn 14. mars síðastliðinn og lögregla hafi mætt á vettvang. Í kjölfarið var Sölvi færður á lögreglustöð. 

Hin konan kveðst hafa verið beitt ofbeldi í júní í fyrra.

Sú segist hafa kynnst Sölva á stefnumótaforritinu Tinder og í kjölfar þess tjáði hún honum að hún héldi úti OnlyFans-síðu. Sölvi á þá að hafa boðist til þess að koma fyrir í myndbandi með konunni á OnlyFans-síðu hennar, þar sem ekki sæist í andlit hans, en konan sagðist þá einungis vinna með fólki sem hún þekkti og treysti. Þá hitti konan Sölva á heimili hans þar sem ætlunin var að spjalla og kynnast en svo fór, að því er fram kemur í yfirlýsingunni, að hann braut á henni kynferðislega.

Á síðustu dög­um hef­ur Sölvi verið á milli tann­anna á fólki vegna ásak­ana um að hafa beitt konu lík­am­legu of­beldi.

Sölvi vís­ar þeim ásök­un­um á bug og hef­ur birt mynd úr mála­skrá lög­reglu þar sem fram kem­ur að hann hafi ekki verið hand­tek­inn fyr­ir of­beld­is­brot á tíma­bil­inu 1. apríl til 3. maí.

mbl.is