Var ölvaður á 160 km/klst þegar banaslysið varð

Frá rannsókn á slysstað.
Frá rannsókn á slysstað. Ljósmynd/RNSA

Maður sem lést í bílslysi á Norðausturvegi, rétt utan við Kópasker, í júlí í fyrra var ölvaður og keyrði á ofsahraða. Vegna veðurs var Norðausturvegur blautur og bíllinn sem maðurinn ók valt um 71 metra eftir að hafa hafnað utanvegar í mjúkri beygju til vinstri. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. 

Maðurinn var 41 árs, erlendur og starfaði á Íslandi. Bifreiðin sem hann keyrði var Mitsubishi Outlander, árgerð 2017. Greining á slysstað og skoðun upptöku úr bílamyndavél í bifreiðinni leiddi í ljós að maðurinn hafi keyrt á um 160 kílómetra hraða á klukkustund, en hámarkshraði á Norðausturvegi er 90 kílómetrar á klukkustund. 

Í atvikalýsingu skýrslunnar segir: 

„Að kvöldi 23. júlí 2020 var Mitsubishi Outlander fólksbifreið ekið á ofsahraða norður Norðausturveg. Rétt sunnan við vegamótin við Hófaskarðsleið missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni í mjúkri vinstri beygju með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af veginum hægra meginn og valt nokkrar veltur. Ökumaðurinn, sem var einn í bifreiðinni, var ekki spenntur í öryggisbelti og kastaðist hann út úr bifreiðinni. Hann lést af völdum áverka sem af slysinu hlutust. Engin vitni voru að slysinu en ökumaðurinn hafði skömmu fyrir slysið tekið á mikilli ferð fram úr annarri bifreið. Farþegi í þeirri bifreið tilkynnti glæfraakstur til lögreglunnar skömmu áður en bifreiðin sem hann var í kom að slysinu.“

mbl.is