„Við teljum okkur vera áfangastað fyrir hjólafólk“

Hluti af æfingahópi HFA. Frá vinstri: Gunnar Jarl Gunnarsson, Sunna …
Hluti af æfingahópi HFA. Frá vinstri: Gunnar Jarl Gunnarsson, Sunna Axelsdóttir, Björn Andri Sigfússon, Hlynur Snær Elmarsson, Skírnir Daði Arnarsson, Elín Auður Ólafsdóttir, Viktor Axel Þorgeirsson, Sigmar Benediktsson, Orri Einarsson, Stefán Garðarsson, Tryggvi Kristjánsson og Harpa Mjöll Hermannsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Á síðustu árum hefur Akureyri heldur betur stimplað sig inn á hjólreiðakortið hér á landi og þá aðallega þegar kemur að fjallahjólreiðum. Akureyrarbær státar af stærsta fjallahjólasvæði landsins frá Hlíðarfjalli og niður í Kjarnaskóg. Þá hefur Hjólreiðafélag Akureyrar (HFA) undanfarin ár staðið fyrir líklega umfangsmestu hjólreiðahátíð ársins þar sem keppt er í svo gott sem öllum hjólreiðagreinum sem stundaðar eru á landinu. Enduro-keppnin sem haldin er á Akureyri fékk svo alþjóðlega vottun á síðasta ári og státar félagið af margföldum bikarmeistara og Íslandsmeistara í fjallabruni kvenna.

Fimm ára plan í vinnslu

Félagið fékk nýlega styrk frá Akureyrarbæ til að vinna að fimm ára plani fyrir nýjar fjallahjólaleiðir og til að viðhalda núverandi leiðum. Var fenginn ráðgjafi til að gera skýrslu með tillögum og segir Árni F. Sigurðsson, formaður HFA, að vonandi geti menn hafist handa fljótlega við þá vinnu. „Við teljum okkur vera áfangastað fyrir hjólafólk, sérstaklega fjallahjólafólk,“ segir hann og bætir við að unnið sé hörðum höndum við að bæta enn frekar aðstöðuna fyrir norðan, sem þó verður að teljast sú besta á landinu.

Árni tók við sem formaður félagsins síðasta haust, en áður hafði hann verið virkur í starfi félagsins síðan hann flutti norður árið 2016. Fór hann fljótlega í mótanefnd og hefur komið að flestum þeirra viðburða sem félagið hefur staðið að síðustu ár. Þess má geta að HFA var stofnað árið 2012, þannig að segja má með sanni að sprengikrafturinn sem fylgir oft nýlegum félögum sé enn til staðar og nýjabrumið ekki farið. Árni segist fyrst ekkert hafa ætlað sér í hjólreiðafélagið, en tekið hjólatúr með einum sem tengdist félaginu sem dró hann inn í starfið og síðan þá hefur hann ekki litið til baka.

Árni er duglegur bæði í fjallahjólreiðum og götuhjólreiðum.
Árni er duglegur bæði í fjallahjólreiðum og götuhjólreiðum. Ljósmynd/Ágúst Örn Pálsson

Hjá félaginu eru í dag um 160 skráðir iðkendur, en Árni segir að þeim hafi síðustu ár fjölgað upp í rúmlega 200 yfir sumarið þegar skráningar í mót byrja. Hann tekur þó fram að það sé mýta að félagið sé bara fyrir keppendur. „Við lítum á okkur sem hagsmunaaðila fyrir hjólasamfélagið á svæðinu. Við sendum inn athugasemdir til bæjarins um stígakerfið og fleira. Þetta er eins og með önnur íþróttafélög. Þar er fullt af fólki skráð sem er ekkert endilega að spila eða keppa og þetta er þekkt hjá rótgrónum félögum. Þetta er eitthvað sem við viljum koma á og fá þessa hugsun inn. Að með því að styðja félagið sé verið að styðja greinina í heild,“ segir hann.

Net fjallahjólaleiða sem þéttist ört

Erfitt er að byrja viðtalið á öðrum nótum en að horfa til fjallahjólreiðanna. Árni segir að í raun sé svæðið byggt upp af nokkrum minni svæðum, frá Hlíðarfjalli og niður í Kjarnaskóg, meðal annars um Glerárdal og Fálkafell. „Þetta eru mörg svæði, en stutt að fara á milli,“ segir hann.

Uppi í Hlíðarfjalli eru komnar 3-4 brautir á skíðasvæðinu og frá skíðasvæðinu liggja tvær niður eftir í Glerárdal. „Hefðbundna leiðin er að fara upp á Fálkafell og Klappir og niður í Kjarnaskóg, en það eru ýmsar mismunandi leiðir,“ segir Árni. Í Kjarnaskógi er svo ein meginleið í gegnum svæðið og segir Árni að hún hafi verið gerð fyrir um 10-15 árum. Það sé sérútbúin leið með brúm og römpum, en til viðbótar séu blandaðir stígar fyrir alla umferð í Kjarnaskógi sem séu mjög fínir fyrir fjölskylduhjólatúra.

Fjallahjólaleiðir í Hlíðarfjalli og niður í Kjarnaskóg við Akureyri.
Fjallahjólaleiðir í Hlíðarfjalli og niður í Kjarnaskóg við Akureyri. Kort/mbl.is

Skíðalyfturnar breyta miklu

Síðustu þrjú sumur hefur skíðasvæðið keyrt skíðalyfturnar á sumrin fyrir hjólafólk, líkt og gert hefur verið í Skálafelli fyrir sunnan. Árni segir að þetta sé í takt við það sem mörg skíðasvæði séu að gera erlendis, en þar séu sum svæði jafnvel farin að sjá fram á að sumarumferðin sé að verða stærri en vetrarumferðin.

„Það hafa verið brautir þarna upp frá í mörg ár, en svo var kýlt á þetta fyrir nokkrum árum og þá var farið að æfa fjallahjólreiðar á markvissari hátt,“ segir Árni og líkir þessu saman við skíðaíþróttirnar. „Það er enginn sem æfir alpagreinar á skíðum án lyftu. Þetta var nauðsynlegt skref ef við ætlum að ná aðeins lengra.“ Þannig bendir Árni á að iðkendur geti með þessu ítrekað farið sömu leiðina til að æfa sig á leiðinni niður í staðinn fyrir að fara í mesta lagi einu sinni eða tvisvar ef ekki væri opin lyfta.

Félagið hefur komið upp brautarhóp sem hefur það að markmiði að vinna að langtímasýn fyrir uppbyggingu hjólainnviða á svæðinu. „Það þarf líka að viðhalda þessu,“ segir Árni, en plan um viðhald er sett upp á vorin. Byrjað er á því að hreinsa til í Kjarnaskógi, því þar þorna leiðirnar fyrst. Svo þarf að laga það sem skemmist áður en hægt er að opna brautirnar.

Bærinn vill styrkja uppbygginguna

Líkt og sagði í inngangi fréttarinnar styrkti bærinn HFA í fyrra til að vinna að fimm ára plani um uppbyggingu og viðhald svæðisins. Segir Árni að bæjaryfirvöld séu farin að sjá sér hag í þessu enda laði aðstaðan og mótahald að talsverðan fjölda. „Bærinn er farinn að sjá að það að halda mót á sumrin dregur að kannski 500 iðkendur og þar af um 72% aðkomufólk,“ segir hann og bætir við að til viðbótar við iðkendurna séu fjölskyldur og aðstandendur. Þetta sé til viðbótar við þá sem komi utan mótavikunnar.

Spurður um helstu verkefni framundan, segir Árni að horft hafi verið til þess að það vanti tengingu úr Kjarnaskógi upp í Fálkafell þannig að hægt sé að fara hring. Uppi í Hlíðarfjalli sé einnig til skoðunar að gera byrjendavænni braut með fínna yfirborði og meira unna. Það væri þá fyrir þá sem eru nýir í fjallahjólreiðum eða þá sem eru vanari og vilja fara hraðar. „Það eru líka möguleikar uppi í fjalli með allskonar leiðir,“ segir Árni um frekari uppbyggingu í Hlíðarfjalli.

Emilia Niewada hefur á undanförnum árum sópað til sín Íslandsmeistaratitlum …
Emilia Niewada hefur á undanförnum árum sópað til sín Íslandsmeistaratitlum í fjallabruni Ljósmynd/Ármann Hinrik Kolbeinsson

Annað stórt atriði sem hann nefnir er að það vanti lítil æfingasvæði með svokölluðu „pump track“ og leiksvæði. Þannig séu flestir kjarnar sem geri út á fjallahjólamennsku með slík svæði og horft hafi verið til þess að setja slíkt upp í Hlíðarfjalli og niðri í bæ. Sagði hann að slík svæði væru jafnan vinsæl hjá yngri börnum og kæmu í veg fyrir að þau þyrftu að fara alla leið upp í fjall.

Loftpúði og stökkpallur fyrir loftfimleikaæfingar

Fyrir nokkru keypti HFA loftpúða til að æfa lendingar eftir stökk. Í vetur var svo bætt við stökkpalli og var þessu komið fyrir í innanhússíþróttahúsinu Boganum. Árni segir að mikil eftirvænting hafi verið fyrir að prófa þetta, enda í fyrsta skipti sem slíkt sé í boði hér á landi. Vegna faraldursins náðist hins vegar bara að halda fjögur slík kvöld þar sem áhugasamir mættu og léku listir sínar í loftinu. Segir Árni að þetta sé komið til að vera og verði vonandi til að auka enn áhuga bæði ungra iðkenda sem og þeirra sem lengra séu komnir.

HFA festi nýlega kaup á bæði stökkpalli og loftpúða sem …
HFA festi nýlega kaup á bæði stökkpalli og loftpúða sem félagsmenn léku sér á innanhúss í vetur. Ljósmynd/ Árni F. Sigurðsson

Götuhjólreiðar eru ekki alveg jafn áberandi og fjallahjólreiðar þegar kemur að aðstöðu fyrir norðan. Þó verður ekki sagt að sú grein þrífist illa þar, þó minna sé um ástundun yngstu kynslóðarinnar. Þannig voru til dæmis þrjár konur sem voru mjög öflugar í elite-flokki á síðasta ári, þær Hafdís Sigurðardóttir, Silja Rúnarsdóttir og Freydís Heba Konráðsdóttir. Fór Hafdís meðal annars ásamt hópi Íslendinga á heimsmeistaramótið í götuhjólreiðum á Ítalíu um haustið.

Byrjendanámskeið sem smita út frá sér

Árni segir að þetta hafi smitað út frá sér og þær Freydís og Hafdís hafi haldið byrjendanámskeið fyrir konur þar sem upp í 40 konur hafi komið saman og hjólað sér til ánægju. Segir Árni að vilji sé til að efla götuhjólastarfið og meðal annars hafi verið horft til samstarfs við Bílaklúbbinn á svæðinu sem er með sitt eigið svæði. „Þar vantar lítið upp á að það sé kominn malbikaður hringur. Væri gaman að geta nýtt það sem criterium-braut, sem væri hægt að nota bæði fyrir börn og fullorðna,“ segir Árni, en slíkur hringur yrði um 1,5 km. „Við höfum látið vita af áhuga okkar,“ bætir hann við en tekur fram að ekkert fomlegt samstarf sé komið á.

Veglegri hjólreiðahátíð

Hjólreiðahátíðin hefur jafnan endað helgina fyrir verslunarmannahelgi, en í ár var ákveðið að lengja aðeins hátíðina þannig að hún myndi ná yfir tvær helgar. Byrjað verður 24. júlí og stendur gleðin yfir til 1. ágúst, en Árni segir að norðanmenn séu spenntir að sjá hvernig þetta takist. Er þetta meðal annars gert til að vera ekki alveg á svipuðum tíma og hlaupahátíð á Vestfjörðum, en þar eru einnig nokkrar hjólakeppnir. Þá segir Árni að með þessu sé verið að tengja hátíðina við hlaupamótið Súlur vertical sem sé haldið um verslunarmannahelgina og þannig gera hátíðina að stærri viðburði. „Við erum að hvetja fólk til að koma norður helgina áður og vera alla vikuna og fara svo í lok versló,“ segir hann.

Meðal keppnisgreina á hjólreiðahátiðinni er svokallað Townhill, en þá er …
Meðal keppnisgreina á hjólreiðahátiðinni er svokallað Townhill, en þá er farið á fjallahjólum niður kirkjutröppurnar. Ljósmynd/Ármann Hinrik Kolbeinsson

Ástæðan fyrir þessum breytingum er að hans sögn að dagskráin hafi verið orðin ansi þétt síðustu ár. Þannig hafi keppendur til dæmis verið að taka þátt í enduro-keppninni og farið svo beint í fjallabrunið, en nú sé enduro-keppnin í byrjun og fjallabrunið á föstudeginum. Þetta leiði líka til þess að keppendur geti æft sig betur í brautunum og þannig gert keppnina skemmtilegri. Árni segir að þá hafi jafnframt verið erfitt að halda götuhjólamótin um helgar þegar meiri umferð sé. Nú sé horft til þess að hafa þau mót í miðri viku.

Auk hjólreiðahátíðarinnar stóð HFA í samstarfi við félagið á Húsavík fyrir götuhjólamóti á milli Akureyrar og Húsavíkur síðasta sumar sem þótti vel heppnað. Árni segir að þá hafi félagið verið að svara kalli um mót vegna vöntunar, en svo sé ekki í ár og því verði mótið ekki endurtekið í sumar. Hann útilokar þó ekki að þessi leið verði farin í framtíðinni, en að í ár verði einbeitingin að fullu á hjólreiðahátíðinni.

Í fyrra stóð HFA fyrir Skjálfandamótinu þar sem hjólað var …
Í fyrra stóð HFA fyrir Skjálfandamótinu þar sem hjólað var frá Akureyri til Húsavíkur og þótti það mjög vel heppnað. Ljósmynd/Ármann Hinrik Kolbeinsson

Viðskiptatækifæri fyrir athafnasama

Árni telur að mikil tækifæri felist í hjólreiðum fyrir bæinn og fyrirtæki á svæðinu. „Það ætti að auglýsa Akureyri sem hjólaáfangastað,“ segir hann og bætir við að hann viti til þess að einhver hótel hafi horft til þess að vera með helgarpakka með hjólaleiðsögn o.fl. „Það fer ekki mikið fyrir þessu enn þá, en þetta gæti stækkað,“ segir hann og bendir á að bæði hafi svigskíði og utanbrautarskíðamennska laðað að sér fjölda gesta á svæðið undanfarin ár, sem og gönguskíði. Það eigi líka við um Ísafjörð þar sem mikið hefur verið lagt upp úr að fá gönguskíðahópa á veturna til æfinga eða fara yfir grunnatriðin. „Við teljum okkur vera áfangastað fyrir hjólafólk, sérstaklega fjallahjólafólk,“ segir Árni og hvetur áhugasama til að fara í að opna hjólaleigu í bænum þar sem slíkt gæti enn aukið á áhuga að koma norður sem og verið viðskiptatækifæri.

Greinin birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins 30. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert