Almenningur hvattur til að sýna aðgæslu

Frá sinubrunanum í Heiðmörk á þriðjudag.
Frá sinubrunanum í Heiðmörk á þriðjudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Skilaboð til almennings eru í rauninni bara sú að sýna sérstaka aðgæslu varðandi opinn eld á svæðinu sem um er að ræða,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum í samtali við mbl.is.

Fyrr í dag var lýst fyrir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Svæðið sem um ræðir er frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi.

„Það hefur ekki rignt hérna í nokkuð langan tíma og eins og spáin er í dag að þá er heldur ekki útlit um að það muni rigna neitt á næstu dögum. Þannig að jarðvegur og gróður er náttúrulega mjög þurr,“ segir Rögnvaldur og bendir á að gróðureldar séu þekktir á þessum árstíma enda sé úrkoma oft lítil.

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. Ljósmynd/Almannavarnir

Ekki þarf mikið til svo að gróðureldar verði, sérstaklega þegar það er mjög þurrt. Þá geti gróðureldar til að mynda komið út frá því að farið sé „óvarlega með vindlinga eða sígarettur, einnota grill eða bara hvaða opinn eld sem er,“ segir Rögnvaldur.

Sumarbústaeigendur sýni aðgæslu

„Á sama tíma eru þetta líka skilaboð til almennings um að viðbragðsaðilar séu að fylgjast vel með. Þannig að við erum búin að auka vöktun og erum að fylgjast vel með hvað er í gangi og allir viðbragðsaðilar að eru taka samtalið,“ segir Rögnvaldur og bætir við að þetta sé einnig hvatning til sumarbústaðaeigenda á svæðinu til að sýna aðgæslu í kringum húsin sín.

Sinueldur í Kópavogi árið 2015.
Sinueldur í Kópavogi árið 2015. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Rögnvaldur hvetur fólk til að sýna árvekni, horfa í kringum sig og vera tilbúið að sýna réttu viðbrögðin. „Um leið og fólk verður vart við eitthvað, ekki hika við að hringja strax og láta vita,“ segir Rögnvaldur að lokum.

Hægt er að fá frekari upplýsingar bæði varðandi viðbrögð og forvarnir á grodureldar.is og á vefsíðu almannavarna.

mbl.is