Breyta þurfi vinnulagi vegna fjölgunar ferðamanna

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helsta áhyggjuefnið núna, hvað varðar stöðu faraldurs kórónuveirunnar hér á landi, er fjölgun í röðum ferðamanna sem koma til landsins. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna og embættis landlæknis í dag.

Benti hann á að ferðamönnum væri að fjölga umfram það sem búist hafði verið við. Orsök þessa væri sú að opnað var fyrir ferðir fólks til landsins frá löndum utan Schengen-svæðisins, sem eru með vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum veirunnar.

„Munar þar mestu um ferðalanga frá Bandaríkjunum.“

Helmingur framvísaði vottorði

„Samkvæmt upplýsingum frá landamæravörðum þá komu hingað síðastliðna viku rúmlega þrjú þúsund ferðamenn eða einstaklingar til landsins og þar af fóru um 680 í sóttvarnahús, eða rúmlega tuttugu prósent,“ sagði Þórólfur.

Tæplega helmingur þeirra, eða um 1.500 manns, framvísaði vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu. Mun þar muna mestu um hátt hlutfall Bandaríkjamanna sem framvísaði vottorðum.

Tók hann svo fram að búist væri við að ferðamönnum fjölgaði enn meira á næstu dögum og vikum.

„Það muni valda miklu álagi á getu okkar til að greina sýni, en heildargetan núna er um þrjú til fjögur þúsund sýni á dag, bæði á landamærum og innanlands.“

Um þriðjungur þjóðarinnar fengið eina sprautu

Þórólfur benti á að þetta kallaði á einhvers konar breytingu á vinnulagi á landamærum, sem vonandi muni ekki koma niður á öryggi við að halda veirunni frá landinu.

Mikilvægt sé að halda áfram fyllsta öryggi þar á sama tíma og ráðist sé í að aflétta takmörkunum innanlands.

„Jafnvel þó að það gangi vel að bólusetja hér á landi þá erum við ekki komin það langt að hægt sé að segja að við séum komin með eitthvað gott hjarðónæmi til að koma í veg fyrir stóra faraldra. Til þess þarf almenn þátttaka að ná 60 til 70 prósentum, með að minnsta kosti einni sprautu.“

Um þriðjungur þjóðarinnar hafi nú fengið að minnsta kosti eina sprautu bóluefnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert