Geta ekki stutt frumvarp um afglæpavæðingu

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri Akureyri
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri Akureyri mbl.is/Þorgeir Baldursson

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra segist ekki geta stutt frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta, en embættið er annað lögreglustjóraembættið til að skila inn áliti þess efnis við frumvarpið. Ekki hafa enn komið álit frá öðrum embættum.

Í álitinu sem dagsett er í gær og undirritað af Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra segir að hún geti ekki stutt frumvarpið þar sem það gangi lengra heldur en yfirlýst markmið frumvarpsins. Þá hafi undirbúningur fyrir stefnubreytingu sem þessa ekki verið nægur og forvarnastarf ekki aukið eða meðferðaúrræðum fjölgað. „Vandséð er hvernig verja eigi börn og ungmenni á sama tíma og afglæpavæða eigi neysluskammta,“ segir í álitnu.

Auki aðgengi ungs fólks 

Segir lögreglustjórinn að með því að neysluskammtar verði gerðir löglegir muni aðgengi ungs fólks aukast enn frekar og að aðhald með neyslu fíkniefna verði ekkert verði frumvarpið að lögum. Segir lögreglustjórinn að líta verði til þess að stór hluti neytenda séu svokallaðir frístundaneytendur sem telji sig ekki aðstoðar þurfi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lagði frumvarpið fram í síðasta mánuði.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lagði frumvarpið fram í síðasta mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglustjórinn segir jafnframt að ekki sé hægt að bera stöðuna saman við stöðuna í Portúgal þegar ákveðið var að afglæpavæða neysluskammta. Þar hafi geisað HIV faraldur og dauðsföllum fjölgað mikið. Einnig sé fólk ekki fangelsað hér á landi vegna vörslu á neysluskömmtum. Þá hafi meðferðarúrræðum verið fjölgað og fræðsla aukin í Portúgal samhliða breytingunni.

Grundvallarregla um lyfseðilskyld lyf afnumin

Lögreglustjórinn gerir einnig athugasemd við að með frumvarpinu séu kaup og varsla lyfseðilsskyldra lyfja til eigin nota, sem ekki hafi verið ávísað á viðkomandi, gerð lögmæt. „Þar með er búið að afnema þá grundvallarreglu að sá sem hefur fengið lyfseðilskylt lyf afhent hafi einn heimild til að kaupa þau, móttaka og varsla,“ segir í álitinu og bætt er við að þetta sé ekki æskileg þróun:  „Þetta þykir varhugavert enda ekki ástæða til að bæta á þann vanda sem notkun á lyfseðilskyldum lyfjum er, þvert á móti hefði verið talið eðlilegra að þrengja lagaumhverfi þessara lyfja enda skaðsemi þeirra gríðarleg við misnotkun. Skemmst er að minnast faraldurs ópíóða sem geisar víða um lönd.“

Líkt og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerir lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra athugasemd við ósamræmi á milli áfengislaga og frumvarpsins, en ef frumvarpið yrði samþykkt myndi ungt fólk á aldrinum 18 og 19 ára vera óheimild að hafa áfengi við hönd en heimilt að hafa í fórum sínum neysluskammta af fíkniefnum.                       

mbl.is