Heita rannsókn og að brugðist verði við

Vefur SOS Children's Village

SOS-barnaþorpin hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem samtökin heita því að bregðast við brotum sem alþjóðasamtökin hafi ekki rannsakað sem skyldi og brugðist við á sínum tíma.

Samtökin staðfesta vanræksluna og að strax verði gripið til aðgerða til að styðja við þolendur brota og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.

Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS-barnaþorpa á Íslandi, segir í viðtali við Andrés Magnússon í Morgunblaðinu í dag að samtökin geti ekki lokað augunum fyrir því sem miður kann að hafa farið í starfsemi alþjóðasamtakanna í ýmsum löndum. Hagsmunir barnanna þurfi að vera í fyrirrúmi og þeir sem styrki starf þeirra verði að vera vissir um að fé þeirra sé vel varið og að ekkert misjafnt fái að þrífast í skjóli samtakanna.

Í ljós hefur komið að alþjóðasamtökin hafa ekki staðið sig sem skyldi við að rannsaka ábendingar og umkvartanir um barnaverndarbrot, jafnvel hætt rannsókn í miðjum klíðum án skýringa. SOS-barnaþorp á Íslandi og víðar hafa gengist fyrir rannsókn á slíkum kvörtunum og meðferð þeirra, sem kalli á gerbreytt vinnubrögð og nýja forystu alþjóðasamtakanna.

Á vef alþjóðasamtaka SOS-barnaþorpa kemur fram að samtökin hafi upplýst stuðningsfólk og stjórnvöld um að æsta ráð samtakanna, International Senate, muni koma á laggirnar sérstakri nefnd sem muni fara í gegnum fyrri mistök. Þar á meðal misnotkun barna, spillingu, fjársvik og brot á reglum sem eiga að vernda mannréttindi barna og starfsmanna. Nefndin hefji störf strax í þessum mánuði. 

Hér er hægt að lesa yfirlýsinguna í heild

Í viðtalinu við Ragnar kemur fram að hann og hin ís­lensku sam­tök bera ekki traust til for­seta og vara­for­seta alþjóðasam­taka SOS-barnaþorpa. Sis­sel Aarak, hjá SOS-barnaþorp­um í Nor­egi, hef­ur sömu sögu að segja.

SOS-barnaþorp voru stofnuð eft­ir síðari heims­styrj­öld til þess að sinna þörf­um munaðarlausra og stríðshrjáðra barna. Þau starfa nú í 137 lönd­um, en um 31 þúsund manns létu fé af hendi rakna til ís­lensku sam­tak­anna í fyrra. Ragn­ar biðlar til þeirra um að treysta því að ís­lensku sam­tök­in gæti gegn­sæ­is. Þau muni ekki una sér hvíld­ar fyrr en „við erum full­viss um að þessi mál séu kom­in í lag, að hinir brot­legu axli ábyrgð“.

Hvað eru þetta mörg brot?

 „Við getum ekki fullyrt um það. Við létum aðeins rannsaka þau mál, sem var kvartað undan við okkur, og taka aðeins til nokkurra barnaþorpa í örfáum löndum. Þess vegna getum við ekki dregið neinar ályktanir af þeirri tölu tilvika, sem þar kemur fram, enda um undantekningar að ræða. Við megum ekki gleyma að á vegum samtakanna starfa um 39 þúsund manns, en þarna ræðir aðeins um nokkra einstaklinga.

Við verðum að vona að þetta séu fátíðar undantekningar, alvarlegar sem þær eru. Hitt er verra þegar þeir bregðast, sem eiga að hafa eftirlit með þessu, eiga að grípa inn í þegar eitthvað misjafnt kemur í ljós. Og bregðast af ásettu ráði, virðist vera.“

Hvað með tölfræði samtakanna?

„Alþjóðasamtökin gefa árlega út barnaverndarskýrslu, sem er öllum opin. Þannig vitum við að árið 2019 hafi 617 tilvik verið tilkynnt, sem innihalda alls kyns mál. Mér sýnist að um 100 þeirra snúist um líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Þetta þarf að skoðast í því samhengi að við erum með 65 þúsund börn á okkar framfæri allan sólarhringinn. Auk þess eru um 3-400 þúsund börn, sem við styðjum við, þótt við önnumst þau ekki.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert