Kennir sér einskis meins og fullur aðdáunar

Guðni í Laugardalshöllinni áður en hann var bólusetttur.
Guðni í Laugardalshöllinni áður en hann var bólusetttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir tilfinninguna mjög góða að vera kominn með bóluefni gegn kórónuveirunni.

„Ég kenni mér einskis meins og er fullur aðdáunar og þakklætis í garð þessa frábæra fólks sem er í þessari traustu keðju sem liggur eiginlega frá Suðurlandsbraut í Laugardalshöll,“ segir Guðni. 

Laganna verðir komu færandi hendi með bóluefnið frá Suðurlandsbraut.
Laganna verðir komu færandi hendi með bóluefnið frá Suðurlandsbraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áður en hann var bólusettur fór hann í bækistöðvarnar í gamla Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut og kynnti sér aðstæður þar sem bóluefnið var sett í sprautur. Þaðan fóru laganna verðir með efnið niður í Laugardalshöll.

„Þar var fjöldi fólks samankominn í morgun. Skipulagið var alveg upp á tíu og allir með bros á vör, bæði þeir sem þarna vinna og þeir sem voru komnir til þess að fá sitt efni. Enn finn ég engin óþægindi vegna efnisins og tek því með jafnaðargeði ef eitthvað slíkt gerist,“ segir Guðni. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann bætir við að það hafi komið sér þægilega á óvart að sprautunin hafi verið án nokkurra óþæginda. Sjálfur sé hann vanur að gefa blóð og þá sé smá sársauki þegar nálinni er stungið inn en þarna hafi raunin verið önnur.

Umræða á heimilinu um bolinn 

Spurður út í stuttermabolinn sem hann klæddist í Höllinni segir Guðni að umræða hafi verið á heimili hans um hvaða bolur skyldi verða fyrir valinu. Íþróttafélög, innlend sem erlend, voru nefnd til sögunnar, ásamt hljómsveitum.

„Niðurstaðan varð sú að taka þennan ágæta Hú!-bol Hugleiks Dagssonar og hann er ágætis tákn um það að þegar við stöndum saman þá vegnar okkur vel í svona ólgusjó eins og við höfum þurft að þola,“ greinir forsetinn frá. „Ég hef farið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á kappleiki í Laugardalshöllinni og manni leið eins og maður væri að fara að sjá Ísland spila. Stemningin var þannig.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í Laugardalshöllinin í morgun. Fjölmiðlar …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í Laugardalshöllinin í morgun. Fjölmiðlar voru að vonum spenntir yfir bólusetningunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stórkostlegt skref til bættrar heilsu

Guðni var bólusettur með bóluefni AstraZeneca, sem hefur verið mikið í umræðunni. Hann segir Íslendinga upp til hópa skynsamt fólk. Hér hafi fólk fylgst vel með og getað myndað sér sína eigin skoðun. „Langflest erum við á því að hættan á aukaverkunum vegna bólusetningar sé svo lítil að það sé þess virði að vera bólusettur enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem ég er bólusettur eða flestir þeirra sem leggja leið sína í Laugardalshöllina. Það er löngu sannað í sögu mannkyns að bólusetningar eru stórkostlegt skref á okkar leið til bættrar heilsu,“ segir hann.

Stemningin í Höllinni var góð, að sögn Guðna.
Stemningin í Höllinni var góð, að sögn Guðna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eliza hefur strítt „gamla manninum“

Forsetinn segir bjarta tíma fram undan í ljósi þess að sífellt er verið að bólusetja fleira fólk. Hann reiknar með því að lítið verði um ferðalög út fyrir landsteinana í sumar og því muni Íslendingar njóta þess að ferðast innanlands rétt eins og í fyrra.

„Við erum á réttri leið. Það rifjast jafnvel upp fyrir manni sá uggur og allar þær áhyggjur sem maður hafði fyrir rúmu ári þegar farsóttin brast á hér heima. Í því ljósi er aðdáunarvert hversu fljótt mannkyni tókst að setja saman, þróa, framleiða og veita bóluefni sem á að duga. Auðvitað vitum við að þessi slagur er ekki búinn og við þurfum að vera undir það búin að taka því sem að höndum ber,“ segir hann og nefnir að nýjar tegundir veirunnar séu sífellt að koma fram. Þótt vel gangi núna sé of snemmt að fagna lokasigri.

Spurður hvenær eiginkona hans Eliza Reid verður bólusett kveðst hann ekki vita það. „Hún fagnaði afmæli í gær, orðin 45 ára. Hún hefur einmitt strítt gamla manninum á því að hann sé miklu fyrr í röðinni en hún,“ segir Guðni hress og kátur.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert