Mjúk löggæsla í dreifbýlinu

mbl.is/Eggert

Mannekla lögreglu og mjúk löggæsla í dreifbýli er heiti rannsóknar, sem þeir Guðmundur Oddsson, dósent við Háskólann á Akureyri, og Andrew Paul Hill, lektor við Háskólann á Akureyri, hafa unnið. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja þróun mannafla íslensku lögreglunnar frá árinu 2007, skoða lögregluna í evrópskum samanburði og greina upplifun dreifbýlislögreglumanna af helstu áskorunum þeirra og bjargráðum. Meðal annars var rætt við 23 lögreglumenn með starfsreynslu í dreifbýli.

Í útdrætti kemur meðal annars fram að fólksfjölgun, fjölgun ferðamanna og fækkun lögreglumanna hafi aukið álag og komið niður á löggæslu, ekki síst í dreifbýli. Árið 2018 hafi Ísland verið meðal þeirra Evrópulanda sem hafi haft hvað fæsta lögreglumenn (185) á hverja 100.000 íbúa.

Í samantekt og lokaorðum segir að niðurstöður viðtala hafi leitt í ljós að dreifbýlislögreglumenn upplifi manneklu, ofurálag, margþætt verkefni, litla aðstoð og óskýr mörk vinnu og einkalífs sem sínar helstu áskoranir. Helstu bjargráð dreifbýlislögreglumanna séu að þróa með sér fjölþætta kunnáttu og hugvitssemi við að virkja félagsauð nærsamfélagsins. Mikilvægust sé góð samskiptahæfni sem grundvallist á samræðum, hæfileikanum að geta stillt til friðar og mjúkri löggæslu til að viðhalda trausti almennings og samstöðu.

Með marga hatta

Eftirfarandi er haft eftir einum viðmælanda í rannsókninni: „Nándin er svo mikil í dreifbýli. Ég upplifði mig ekki bara sem löggu heldur sem félagsráðgjafa, prest og sálfræðing. Ég var með svo marga hatta og ég fékk bara borgað fyrir að vera með einn hatt. Fólk var að koma heim til manns og hringja í einkasíma manns og það skipti ekki máli hvað klukkan var. Þetta var gert allan sólarhringinn. Það var bara ekkert einkalíf. Lögreglumenn í Reykjavík eru ekki að lenda í þessu [...] Aðrir hafa lent í þessu líka, eins og til dæmis læknar og prestar. Ef þú fórst á lífið þá varstu kominn í sálfræðiviðtal og að svara spurningum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert