Varnarvirki fyrir yfir tvo milljarða

Vinna við gerð snjóflóðavarna á Siglufirði verður haldið áfram í …
Vinna við gerð snjóflóðavarna á Siglufirði verður haldið áfram í sumar og bauð Köfunarþjónustan lægst í verkið. Ljósmynd/Sigurður Hlöðversson

Áætlað er að á vegum ofanflóðasjóðs verði framkvæmt fyrir ríflega tvo milljarða króna í ár við varnir vegna snjó- og aurflóða. Varnirnar eru af ýmsum toga, en meðal annars verður unnið við mannvirkjagerð á Patreksfirði, í Neskaupstað, Siglufirði, Flateyri, Seyðisfirði og Eskifirði.

Á Fífladalasvæði í Hafnarfjalli fyrir ofan Siglufjörð verður haldið áfram og lokið uppsetningu upptakastoðvirkja. Nýlega voru opnuð tilboð í framkvæmdahluta verksins og átti Köfunarþjónustan lægsta tilboð upp á tæplega 853 milljónir króna. Kostnaðaráætlun vegna verktakavinnunnar var upp á rúmlega milljarð, en alls bárust fjögur tilboð í verkið. Miðað er við að framkvæmdirnar á Siglufirði standi í fjögur ár.

Samkvæmt upplýsingum Hafsteins Pálssonar, verkfræðings í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, verða stærstu einstöku verkefni sjóðsins í ár á Patreksfirði og í Neskaupstað, þar sem á hvorum stað verður unnið fyrir yfir 400 milljónir króna.

Á Patreksfirði verður unnið við varnargarða vestast í bænum og er um að ræða framhald á verkefnum síðustu ára.

Í Neskaupstað er vinna í gangi við keilur og fleira undir Urðarbotni og Sniðgili, en varnargaður þar er að mestu kominn.

Á Flateyri hefur uppsetning snjógirðinga á litlum kafla á Eyrarfjalli verið boðin út og er um tilraunaverkefni að ræða. Þá er verið að undirbúa frekari aðgerðir á Flateyri.

Framkvæmdir og frumathugun

Á næstunni verður gerð varnargarðs við Ölduna og Bakkahverfi í norðanverðum Seyðisfirði boðin út og ættu framkvæmdir að geta hafist síðla sumars. Frumathugun á því hvað gert verður í framhaldi af aurflóðunum í Seyðisfjarðarbæ í vetur ætti að liggja fyrir í sumarbyrjun. Þegar hún liggur fyrir verður tekin ákvörðun um hvað gert verður til að verjast aur- og snjóflóðum og síðan tekur við mat á umhverfisáhrifum, hönnun og fleiri þættir. Ofanflóðasjóður hefur undanfarið komið að bráðavörnum í Seyðisfirði í kjölfar atburða vetrarins.

Við Lambeyrará á Eskifirði verður í ár unnið að krapaflóðavörnum og er það fjórði árfarvegurinn sem unnið er að í bænum.

Hafsteinn segir að fjárveiting til ofanflóðasjóðs hafi verið hækkuð um 1.600 milljónir króna frá síðasta ári í tæpa 2,7 milljarða. Vegna seinkunar á nokkrum verkefnum í fyrra hafi fjármagn verið flutt á milli ára þannig að sjóðurinn hafi rúmlega þrjá milljarða til ráðstöfunar í ár.

Hann reiknar með að kostnaður við framkvæmdir ársins verði 2,2-2,4 milljarðar, en auk sjálfra framkvæmdanna fari fjármagn í ýmsan undirbúning svo sem hættumat, frumathuganir, mat á umhverfisáhrifum, hönnun og rannsóknir.

Í vikunni svaraði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um aðgerðir í kjölfar snjóflóða. Í svarinu kemur meðal annars fram að ratsjá sem var á Skollahvilftargarðinum á Flateyri eyðilagðist í snjóflóðinu í janúar í fyrra og hefur hún verið endurnýjuð.

Í skriflegu svari ráðherra segir: „Í byrjun mars 2021 var á Flateyri sett upp í rannsóknarskyni nýjasta kynslóð snjóflóðaratsjár til þess að kanna hversu vel slíkt tæki getur nýst við snjóflóðavöktun á Flateyri og Hvilftarströnd. Þessi tegund ratsjáa getur séð mun stærra svæði en áður og greint flóð úr nokkrum snjóflóðafarvegum. Einnig getur ratsjáin greint staðsetningu og stærð snjóflóðanna.

Ratsjáin gagnast hugsanlega í öryggisviðbúnaði vegna snjóflóðahættu á Flateyrarvegi neðan Skollahvilftar og giljanna næst innan hennar og verður það kannað á næstunni í samvinnu við Vegagerðina. Ratsjár þessarar gerðar eru víða notaðar erlendis til þess að stjórna umferð um vegi sem liggja um snjóflóðahættusvæði.“

Í svarinu kemur einnig fram að prófun stendur yfir á tölvulíkani sem er ætlað að herma snjóflóð sem lenda á varnargörðum. Áformað er að nýta líkanið við endurmat á hættu undir sex leiðigörðum á landinu síðar á þessu ári, þ.m.t. á Flateyri. Líkanið kann einnig að gagnast við mat á virkni keilna sem koma til greina til þess að hægja á snjóflóðum áður en þau lenda á leiðigörðunum á Flateyri.

Aðvörunarljós sett upp

Á síðasta ári var unnið að enduruppbyggingu og styrkingu mælakerfis á Flateyri. Settir voru upp sjálfvirkir snjódýptarmælar á tveimur stöðum ofan Flateyrar síðastliðið haust. Á Flateyri hefur verið ráðinn snjóathugunarmaður í fast 25% starfshlutfall, en áður var þar snjóathugunarmaður á tímakaupi, og á Suðureyri hefur nú í fyrsta sinn verið ráðinn snjóathugunarmaður.

Ísafjarðarbær hefur sett upp aðvörunarljós í höfnunum á Flateyri og Suðureyri sem lögregla kveikir á þegar talin er hætta á flóðum eða flóðbylgjum. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar metur aðstæður í samráði við lögreglu og aðra aðila. Snjóflóðavaktfólki á Veðurstofunni hefur verið fjölgað úr sex í níu, að því er fram kemur í svarinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert