Vonandi hægt að aflétta nokkuð hratt

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ásamt Víði Reynissyni.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ásamt Víði Reynissyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Góðar líkur eru á að tekist hafi að ná utan um þær hópsýkingar kórónuveirunnar sem upp komu á undanförnum vikum. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna og embættis landlæknis í dag.

Benti hann á að rúmlega 1.200 sýni hefðu verið tekin innanlands í gær. Síðastliðna viku hefðu þá 28 greinst með veiruna en aðeins tveir þeirra verið utan sóttkvíar við greiningu.

„En veiran er enn úti í samfélaginu og það er mikilvægt fyrir þá sem eru í sóttkví að halda hana, því líklega munu 5% af þeim hundruðum sem nú eru í sóttkví líklega greinast með smit,“ sagði Þórólfur.

Aðgerðirnar að virka

Fjórir hefðu greinst með virkt smit á landamærum undanfarna viku, þar af þrír í fyrri skimun.

„Þær aðgerðir sem gripið var til fyrir nokkru hafa að líkindum dregið úr komu þeirra sem líklegastir voru til að bera með sér smit,“ bætti hann við.

„Þetta gefur vonandi tilefni til að hægt verði að aflétta nokkuð hratt á næstu vikum hér innanlands.“

Áætlað er að næsta reglugerð muni taka gildi í næstu viku. Um 450 manns eru nú í sóttvarnahúsum. Fimm liggja inni á Landspítala vegna veirunnar, þar af eru þrír með virkt smit en enginn þeirra er á gjörgæslu.

mbl.is