75 þúsund skammtar verði afhentir fyrir 2. júní

Bóluefni Spútnik V.
Bóluefni Spútnik V. AFP

Heilbrigðisráðuneytið ásamt fulltrúa utanríkisráðuneytisins hafa fundað með fulltrúum Gamaleya National Research Center for Epidemiology and Microbiology í Rússlandi, upphaflegum framleiðanda og þróunaraðila Spútnik V bóluefnisins. 

Rædd voru möguleg kaup bóluefnisins Spútnik V. Í framhaldi sendi Russian Direct Investment Fund (RDIF) sem fjármagnar stærri framleiðslu bóluefnisins ásamt því að sjá um skráningu, lyfjagát og markaðssetningu lyfsins, ráðuneytinu viljayfirlýsingu um að hefja samningaviðræður um kaup á bóluefninu. Þar kemur fram að Íslandi standi til boða að kaupa skammta fyrir 200 þúsund einstaklinga.

Í svari heilbrigðisráðuneytisins til mbl.is segir að í ráðuneytinu séu nú tilbúin drög að athugasemdum við viljayfirlýsinguna. Þær eru þess efnis að samningar ljóði á kaup um meðferð fyrir 100 þúsund einstaklinga, að a.m.k. 75% af keyptum skömmtum verði afhentir í síðasta lagi þann 2. júní næstkomandi og að kaup á bóluefni Spútník sé háð því að gefið verði út markaðsleyfi fyrir Spútnik V í Evrópu í síðasta lagi 2. júní. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi ríkisstjórninni frá stöðu mála á ríkisstjórnarfundi í morgun. Undirritun viljayfirlýsingar felur ekki í sér að Ísland skuldbindi sig til að ganga til samninga um kaup á Spútnik V. 

Ísland hefur þegar samið um kaup á bóluefni Pfizer fyrir 245 þúsund einstaklinga, bóluefni Moderna fyrir 147.250 einstaklinga, bóluefni Astra Zeneca fyrir 115 þúsund einstaklinga og bóluefni Janssen fyrir 235 þúsund einstaklinga. Einnig hefur verið samið um kaup á bóluefni CureVac fyrir 90 þúsund einstaklinga en prófunum á því bóluefni er ekki lokið.

mbl.is