Fjölmiðlafrumvarpið að „tímabundnu stuðningskerfi“

Frumvarpinu er ætlað að styðja einkarekna fjölmiðla.
Frumvarpinu er ætlað að styðja einkarekna fjölmiðla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis hefur sent frá sér álit á fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem lagt er til að breytingar frumvarpsins gildi einungis út árið. 

„Meiri hlutinn telur æskilegast að fyrirkomulag stuðningskerfisins sem kveðið er á um í frumvarpi þessu verði tekið til nánari skoðunar,[...] en verði jafnframt tekið til skoðunar samhliða þeirri endurskoðun sem á sér stað á skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna.

Í ljósi þessa telur meiri hlutinn að svo stöddu ástæðu til að um verði að ræða tímabundið stuðningskerfi sem gildi til 31. desember 2021 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árið 2020,“ segir í meirihluta áliti allsherjar- og menntamálanefndar.

Undir álit þetta rita Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknar og framsögumaður málsins, Páll Magnússon og Birgir Ármannsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmenn Vinstri grænna.  Þær síðast nefndu setja báðar fyrirvara við afgreiðsluna. 

Í samtali við mbl.is segir Bjarkey Olsen að fyrirvarar hennar Steinunnar hafi snúið að hlutfalli rekstarstuðnings sem hver fjölmiðill getur fengið, einnig hafi þær gert fyrirvara við gildistíma stuðningsins, sem þær hefðu viljað hafa til lengri tíma.

mbl.is