Samþykktu tilboð „með óbragð í munni“

Frá fyrri fund Kópavogsbæjar. Sjá má Theódóru S. Þorsteinsdóttur, og …
Frá fyrri fund Kópavogsbæjar. Sjá má Theódóru S. Þorsteinsdóttur, og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra. mbl.is/Golli

Það er með óbragð í munni sem ég samþykki tilboð frá malbikunarstöð í eigu Reykjavíkurborgar sem er í beinni samkeppni við einkafyrirtæki,“ segir í bókun Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra Kópavogs í fundargerð bæjarráðs frá því í gær þar sem fjallað er um niðurstöður útboðs á efnisvegum malbiks fyrir Kópavog 2021-2022. 

Malbikunarstöðin Höfði hf. sem er í eigi Reykjavíkurborgar átti lægsta tilboð. 

Aðrir bæjarfulltrúar tóku undir

„Ég tel að fyrirtækið og Reykjavíkurborg ætti að sjá sóma sinn í að halda sig við að framleiða fyrir götur í eigin sveitarfélagi, sem er með um helming af gatnakerfi á höfuðborgarsvæðisins, í stað þess að seilast í nágrannasveitarfélögin. Þá hefur komið í ljós að gæði malbiksins hafa verið með þeim hætti að Vegagerðin hefur takmarkað viðskipti við fyrirtækið. Þarna er um ójafnan leik á milli aðila á markaði að ræða,“ segir enn fremur í bókun Ármanns. 

Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknar og Karen E. Halldórsdóttir og Hjördís Ýr Johnson bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku undir bókun Ármanns. 

Theódóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi BF Viðreisnar, tók í sama streng og bókaði eftirfarandi: 

Undirrituð telur óeðlilegt að fyrirtæki í eigu sveitarfélags keppi á samkeppnismarkaði. Mikilvægt er að aðilar á samkeppnismarkaði keppi á jafnræðisgrundvelli. Á meðan Höfði er í eigu Reykjavíkurborgar er ekki hægt að tryggja jafnræði. Það sama á við Sorpu bs. og aðra starfsemi í samkeppnisrekstri í eigu sveitarfélaga.

Þrír buðu í verkið 

Þrjú tilboð bárust í efnisútvegum fyrir Kópavog fyrir árin 2021 og 2022. Með efnisútvegum er átt við framleiðslu og afhendingu á malbiksefni fyrir nýlagnir malbiks á götum, göngustígum, plönum og gangstéttum, malbiksyfirlagningu og eftir atvikum fyrir malbiksviðgerðir er fram kemur í útboðsgögnum.

Malbikunarstöðin Höfði hf., Colas Ísland hf. og Malbikunarstöðin ehf. buðu öll í verkið. Sem fyrr segir átti Malbikunarstöðin Höfði lægsta tilboð upp á 79.980.000 krónur, eða 96% af kostnaðaráætlun. 

Colas Ísland átti næst lægsta tilboðið sem hljóðaði upp á 81.760.000 krónur, eða 98% af kostnaðaráætlun og Malbikunarstöðin hf. átti hæsta boð upp á 95.280.000 krónur, eða 114% af kostnaðaráætlun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert