Áfram hæð yfir Grænlandi

Kort/Veðurstofa Íslands

Áfram er fremur sterk hæð yfir Grænlandi og ekki er útlit fyrir mikla úrkomu á suðvestanverðu landinu í einhvern tíma að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Vert er því að minnast á gróðureldahættu þrátt fyrir þá úrkomu sem féll í gær og nótt. Hún verður fljót að gufa upp eða hverfa í jarðveginn þar sem magnið var ekki mikið.

Búast má við keimlíku veðri næstu daga og hefur verið með dálitlum blæbrigðum milli daga. Norðlægar áttir, él og svalt veður norðaustan til en bjartara yfir, yfirleitt þurrt sunnan- og vestanlands og hiti 3 til 8 stig að deginum þar,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Óvissustig er í gildi vegna hættu á gróðureldum.

Veðurhorfur í dag og næstu daga

Norðaustanátt, víða 5-10 m/s. Léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert en él norðaustan til. Svipað veður á morgun en hvessir dálítið, allt að 13 m/s við suðausturströndina. Hiti 0 til 3 stig austan og norðaustan til en 3 til 8 stig að deginum á vestanverðu landinu. Næturfrost um allt land.

Á sunnudag:

Norðaustan 5-13 m/s, hvassast við suðausturströndina. Dálítil él og hiti 0 til 3 stig austan og norðaustan til en víða bjart og hiti 3 til 8 stig að deginum á vestanverðu landinu.

Á mánudag og þriðjudag:
Norðan og norðaustan 3-10 m/s. Skýjað að mestu en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi, frost 0 til 5 stig. Léttskýjað sunnan- og vestanlands og hiti 3 til 9 stig yfir daginn.

Á miðvikudag:
Fremur hæg breytileg átt, skýjað með köflum og stöku smáél en léttskýjað vestan til. Hiti 3 til 8 stig en um frostmark norðaustan til.

Á fimmtudag (uppstigningardag) og föstudag:
Hæg breytileg átt og víða bjart en líkur á stöku éljum syðst. Hiti frá frostmarki með austurströndinni upp í 8 stig að deginum um landið suðvestanvert.

mbl.is