Fjögur smit í Skagafirði

mbl.is/Sigurður Bogi

Fjögur smit greindust í Skagafirði í gær og var einn þeirra smituðu utan sóttkvíar. Nú eru 58 í sóttkví á Sauðárkróki og nágrenni vegna þessa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra. Alls eru 72 í sóttkví á Norðurlandi vestra. Í gærmorgun var ekkert smit á Norðurlandi vestra en þrír voru í sóttkví. 

Unnið er að smitrakningu og er af þeim sökum töluverður fjöldi kominn í úrvinnslusóttkví. Niðurstöður úr skimunum ættu að liggja fyrir í kvöld eða í fyrramálið.

„Aðgerðastjórnin vill minna íbúa Norðurlands vestra á að gæta allra persónulegra sóttvarna og minnast þess einnig að stríðið við Covid-19 er ekki liðið hjá, veiran er ennþá úti í samfélaginu. Við þurfum öll að vera á varðbergi. Það er aldrei of oft ítrekað að finni einstaklingar fyrir einkennum, fari þeir ekki á meðal fólks heldur fari í skimun. Almannavarnir byrja heima.“

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir að smitin tengist öll en um er að ræða fólk á sama vinnustað og fólk sem er bundið þeim fjölskylduböndum. Smitrakning sé í fullum gangi og mögulega komi smitin úr tveimur áttum. Sundlauginni á Sauðárkróki var lokað í gær í varúðarskyni vegna þessa. 

Sigfús segir að þetta séu fyrstu smitin sem greinist í Skagafirði í mjög langan tíma en sveitarfélagið hafi hingað til sloppið vel. Smitin eru bæði á Sauðárkróki og annars staðar í Skagafirðinum. 

Talsverður hópur hafi farið í sýnatöku og stendur hún enn yfir. Segir Sigfús að viðbrögðin verði í samræmi við niðurstöður skimunar en það verður ekki ljóst fyrr en síðar í dag eða í kvöld. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert