Ný hjólreiðaáætlun Reykjavíkur á teikniborðinu

Katrín stundar sjálf hjólreiðar, bæði í daglegu lífi og á …
Katrín stundar sjálf hjólreiðar, bæði í daglegu lífi og á ferðum sínum um landið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mjög líklegt er að hlutfall hjólreiða í öllum ferðum í Reykjavík sé þegar komið yfir áætlun sem sett var í aðalskipulagi borgarinnar til ársins 2030. Ný hjólreiðaáætlun Reykjavíkur er nú í vinnslu fyrir árin 2021-2026, en þar verður meðal annars horft til að fjölga sérstökum hjólaleiðum innan borgarinnar, bæta hjólatengingar innan hverfa með hjólastígum sem og skilgreindum hjólagötum og bæta öryggi meðal annars með það fyrir augum að auka hlutfall kvenna sem nýta sér samgönguhjólreiðar.

Úr 2% í 10% allra ferða

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, er formaður stýrihóps um áætlunina. Þetta er í þriðja skiptið sem hjólreiðaáætlun borgarinnar verður sett fram, en áður voru þær settar fram árin 2010 og 2015 og giltu í fimm ár. Ásamt Katrínu eiga þær Kristín Soffía Jónsdóttir og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir sæti í hópnum. Áformað er að vinnan við áætlunina klárist í vor og að hún taki gildi í haust. Katrín bendir á að á þeim tíma sem fyrsta áætlunin tók gildi hafi hlutdeild hjólandi í öllum ferðum í borginni aðeins verið um 2%. Árið 2014 var hlutfallið komið upp í 5,5% og árið 2019 var hlutfallið 7%, en könnun á ferðavenjum er gerð á tveggja ára fresti og næsta könnun því væntanlega núna í haust.

Katrín segir að í kórónuveirufaraldrinum hafi hjólreiðar aukist til muna og það sýni meðal annars ásóknin hjá hjólabúðum sem margar hafi staðið með tómar hillur í fyrra þar sem þær náðu ekki að anna eftirspurn. „Eftir Covid er ótrúlega margt fólk sem á hjól og þekkir stígakerfið. Það verða fleiri sem munu halda áfram að hjóla og jafnvel þó það hafi kannski komið toppur í fyrra þá held ég að þetta hafi verið ótrúlega góður neisti á það hvað hjólreiðar séu góðar,“ segir hún og bætir við að þetta sjáist ekki bara með fleirum á hefðbundnum reiðhjólum, heldur hafi orðið mikil fjölgun rafmagnsreiðhjóla í umferðinni sem og í fjallahjólreiðum.

Ekki annað í stöðunni en að hækka rána

Út frá þessari sprengingu í fyrra segist Katrín telja að markmiði aðalskipulagsins til 2030 um 8% hlutfall hjólandi í öllum ferðum sé þegar náð. Því sé ekkert annað í stöðunni en að hækka rána. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvert hlutfallið eigi að vera í komandi hjólreiðaáætlun, en Katrín telur líklegt að það verði einhvers staðar við 10%. Hún segir að það gæti þó orðið vanmat og fróðlegt verði að sjá útkomuna úr könnuninni í haust.

Spurð hvað verði gert ef hlutfallið verði jafnvel komið upp fyrir þá tölu sem áætlunin leggi upp með segir Katrín að það gæti alveg komið til greina að endurskoða markmiðið.

Brekkur og rok hætt að skipta máli

Rafhjólum hefur fjölgað mikið síðustu ár, líkt og sjá má í samantekt á öðrum stað í blaðinu. Katrín segir að þessi þróun samhliða fjölgun rafhjóla og rafhjólaleiga valdi því að brekkur og rok séu hætt að skipta máli. Flestir sem velji þessa farkosti vilji einnig nota hjólainnviði til ferða og því kalli þessi mikla fjölgun á að vel verði áfram gert í uppbyggingu innviðanna.

Fram undan er uppbygging borgarlínu og segir Katrín að þar verði hjólastígar víðast meðfram. Auk þess geri samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins ráð fyrir 8,2 milljörðum á næstu 15 árum í göngu- og hjólastíga og við það bætist svo framkvæmdir samkvæmt hjólreiðaáætluninni.

Graf/mbl.is

Skilgreindar hjólagötur

Undanfarin ár segir Katrín að lögð hafi verið áhersla á lengri tengingar yfir í önnur sveitarfélög og innan Reykjavíkur. Í þessari hjólreiðaáætlun verði skrefið tekið áfram með því að skoða betur hjólatengingar innan hverfa. „Bæði með hjólastígum en líka með skilgreindum hjólagötum,“ segir Katrín. Þar er horft til fáfarinna gatna með hægri umferð þar sem mögulegt verður að beina hjólandi umferð til að auka öryggi hjólreiðafólks og gera þessa umferð meira sýnilega á ákveðnum stöðum. Katrín segir að þessi nálgun þekkist í Hollandi og þangað hafi stýrihópurinn horft í þessu samhengi.

Samhliða þessu hefur VSO ráðgjöf unnið að því að teikna upp hjólaleiðir sem bætast við núverandi lykilhjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu, en Katrín segir að enn eigi eftir að taka afstöðu til tillagna ráðgjafarstofunnar. „Þetta er allt að smella saman,“ segir hún hlæjandi.

„Þurfum að finna leiðir til að fjölga stelpum“

Öryggi hjólreiðafólks er annað leiðarstef og var það reyndar líka í fyrri hjólreiðaáætlunum. Bent hefur verið á að konur hjóli mun síður en karlar og að öryggismál spili þar stóra rullu. „Konur eru færri í öllum aldurshópum, við þurfum að finna leiðir til að fjölga stelpum sem hjóla,“ segir Katrín og vísar aftur til þess að með öruggari innviðum ættu hjólreiðar að höfða frekar til kvenna. Segir hún þetta einnig eiga við um fleiri hópa sem hafa síður valið hjólreiðar.

Að sögn Katrínar hafa flest markmið sem sett voru í fyrri áætlun náðst eða eru við það að nást. „Þetta er samt áframhaldandi vinna í lengri tíma,“ segir hún um hjólreiðamálin hjá borginni. Nokkur verkefni hafi jafnframt farið fram úr vonum og bendir hún á að eitt markmiðið hafi verið að koma upp hjólastæði við flestalla skóla borgarinnar fyrir 20% nemenda. „Það eru margir skólar komnir langt fram úr þessu,“ en Katrín segir að það helgist meðal annars af mikilli notkun við suma skóla. Nefnir hún sem dæmi að í Laugarnesskóla komi um helmingur nemenda á hjóli eða rafskútum og í Langholtsskóla og Fossvogsskóla sé hlutfallið litlu minna.

Aukin vetrarþjónusta forgangsatriði

Stýrihópurinn fékk hollenska ráðgjafarfyrirtækið Mobycon í lið með sér til að smíða áætlunina, en fyrirtækið hefur sérstaka þekkingu á vetrarþjónustu að sögn Katrínar. Vegna faraldursins hafa ráðgjafarnir þó ekki komist hingað til lands, en Katrín segir að þeir hafi veitt góða innsýn í mörg þörf mál. Þannig hafi þeir skoðað kúltúrinn hér á landi, fjölda hjólandi og þróun í þeim efnum, veðurfar og fengið upplýsingar um gæði og viðhald stíga. Út frá þessu hafi fyrirtækið meðal annars veitt ráðgjöf um helstu aðgerðir sem þurfi til að byggja upp þétt hjólanet sem gagnist sem best við að fólk komist ferða sinna á hjóli.

Nefnir Katrín að aukin vetrarþjónusta sé eitt af því sem helst verði lögð áhersla á í nýju áætluninni og stígum sem verða í fyrsta forgangi með vetrarþjónustu muni fjölga mikið. Það þýðir í raun að þeir stígar verða ruddir eða þjónustaðir á annan hátt fyrr en þeir stígar sem eru í lægri forgangi. Með því verða fleiri íbúar borgarinnar sem búa nálægt stígum sem verða ruddir eða saltaðir snemma og ætti það að auðvelda för þeirra á dögum þegar snjóar.

Þessi þjónusta er að hennar mati algjört grundvallaratriði þannig að fleiri horfi á samgönguhjólreiðar sem vænlegan kost til að fara í og úr vinnu. Bendir hún á að enn séu mun fleiri sem vilji nota hjól til að fara leiða sinna en það geri og með bættum innviðum og þjónustu geti það raungerst. Þannig vísar hún í nýlega könnun Maskínu sem segir að 27% íbúa borgarinnar yfir 18 ára aldri vilji helst ferðast á hjóli.

Vill sjá tómstunda- og keppnishjólreiðar í áætluninni

Einnig er stefnt að því að fjallahjólreiðar og keppnishjólreiðar verði í komandi áætlun að sögn Katrínar. „Við munum aðeins tæpa á fjallahjólreiðum,“ segir hún og bætir við: „Mig langar að fjalla um hjólakeppnir líka í stefnunni, en það getur búið til áhuga hjá fólki á hjólreiðum almennt.“ Þannig segir hún að horft sé til þess að koma upp tveimur hjólabrautum, svokölluðum „pump track“, en þar er helst til skoðunar Klambratún og Gufunes.

Bendir hún á að þá sé ýmislegt í gangi hjá borginni þegar komi að þessum hluta hjólreiða og þannig sé nú hjólagarður í Skálafelli á sumrin og í rammaskipulagi fyrir Austurheiðar sé horft til þess að koma upp fjallahjólaleið.

„En hjólainnviðir eru líka fyrir þá sem eru að njóta,“ segir Katrín að lokum. „Þetta er ekki bara fyrir þá sem eru að fara á milli staða. Það er mikilvægt að fólk geti notið þess að vera með fjölskyldunni úti að hjóla í góðu veðri.“

Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins 30. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »