Vænta þess að fá niðurstöður sýnatöku í fyrramálið

Hátt í 200 manns voru skimaðir í Skagafirði í dag …
Hátt í 200 manns voru skimaðir í Skagafirði í dag og myndaðist röð við sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Ljósmynd/Sigurbjörn Björnsson

Ekki hafa fengist niðurstöður úr þeim sýnum sem tekin voru í Skagafirði í dag, eftir að fjórir greindust þar smitaðir í gær. Sýnin telja hátt í tvö hundruð en vonast var til þess að niðurstöðurnar fengjust í kvöld.

„Þetta verður þá væntanlega í fyrramálið,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, í samtali við mbl.is.

„Við vissum það að í dag væri stór dagur í greiningu sýna vegna mikillar flugumferðar. Þessi sýni eiga þó að vera í forgangi,“ bætir hann við.

Tekist að hemja útbreiðsluna áður

Aðspurður segir hann að kórónuveirusmit hafi vissulega komið upp á svæðinu áður.

„Við höfum fengið smit og auðvitað orðið skelkuð í hvert skipti sem þau hafa komið upp. En það hefur alltaf tekist með röskum aðgerðum að kveða útbreiðsluna í kútinn. Smitin núna eru þó þess eðlis að þau gætu hafa breiðst út, en við vonumst auðvitað til að okkur muni einnig takast þetta fljótt í þessu tilviki.“

mbl.is