„Ég gerðist skólabókardæmi um meðvirkni“

mbl.is

Jónas Sigurðsson tónlistarmaður segist hafa fallið á prófinu með færslu sem hann ritaði í liðinni viku á Facebook. Hann segist hafa ritað færsluna í geðshræringu og sagði ásakanir á hendur manni sem hann þekkir vel rugl og lygi.

Í opinni færslu sem Jónas skrifar á Instagram í gærkvöldi segist hann hafa gerst skólabókardæmi um meðvirkni.

„Í þessari viku gerði ég mikil mistök í geðshræringu yfir því sem ég upplifði, ásakanir a mann sem ég þekki vel og hef verið í góðum tengslum við. Ég skrifaði status. Sagði ásakanirnar rugl og lygi. Ég gerðist skólabókardæmi um meðvirkni. 

Um vandamálið í samfélaginu sem þolendur kynferðisofbeldis hafa verið að benda á síðustu ár. Það tók samt tíma að átta mig á hvað hafði gerst. 

Ég tók þetta út af Facebook morguninn eftir kæruna en skaðinn er skeður, ég þarf að horfast í augu við þann skaða sem ég hef valdið. Ég hef talað við marga síðustu daga og er að melta atburðarásina. Í raun að melta hvað gerðist hjá mér [og] að ég féll svona á prófinu.

Ég þurfti að taka mér tíma til að hugsa og skrifa svo um þetta og viðurkenna því ég vildi að sá texti k[æ]mi frá hjartanu og væri sannur.

Eins og fjölskylda mín og vinir vita þá er ég ófullkominn og mennskur og er að vinna með það á hverjum degi. 

Þetta er rosaleg lexía fyrir mig að hafa gert þetta eins og ég hata ofbeldi mikið og óska þess svo mikið að við gætum upprætt þessa meinsemd úr samfélaginu okkar. Sérstaklega varðandi þolendur. En eitt get ég sagt að þetta er lexía fyrir lífið og ég ætla að gera betur. Vá hvað ég ætla að gera betur,“ skrifar Jónas á Instagram.

View this post on Instagram

A post shared by Jónas Sig (@jonassigmusic)

Fjölmargir einstaklingar hafa stigið fram á samfélagsmiðlum undanfarna daga, einkum Twitter og bæði lýst ofbeldi sem viðkomandi hefur orðið fyrir og eða þeir standi með þolendum ofbeldis. Þar er meðal annars bent á hvernig hægt er að taka þátt í að stöðva slíkt ofbeldi og sýna það í verki hvernig hægt er að standa með þolendum.

Anna María Kortsen Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi í Hörðuvallaskóla, bendir á hvernig skólafólk geti gert meira því aðeins með samtali sé hægt að breyta einhverju.

„Samskipti við aðra ættu alltaf að vera á dagskrá í námi og kennslu og við getum gert það mjög vel í skólum ef að við erum meðvituð um að við höfum það sem markmið í allri vinnu að efla samskipti og virðingu nemenda þeirra á milli. Við þurfum líka að ræða um kynlíf við börn frá mjög ungum aldri. Þetta er ekki feimnismál, þetta er eðlilegur hluti af lífi flestra lífvera (að minnsta kosti ansi margra). Það þarf ekki að vernda börn fyrir þessu en það þarf að kenna þeim hvað sé eðlilegt og hvað ekki. Við skólafólkið þurfum að vera hluti af lausninni og við getum orðið jákvæðir áhrifavaldar ungs fólks um alla framtíð ef að við ætlum okkur það,“ skrifar Anna María í grein á netinu um nauðgunarmenningu og hlutverk skóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert