Ekki barn heldur fugl

Ekki kemur fram í dagbók af hvaða gerð fuglinn var.
Ekki kemur fram í dagbók af hvaða gerð fuglinn var. Af Wikipedia

Lögreglunni barst tilkynning um skrítin hljóð sem kæmu frá íbúð í Hafnarfirði á sjöunda tímanum í gær líkt og barn hefði verið að öskra. Þegar að varð gáð kom í ljós að um fugl var að ræða. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tveir menn voru handteknir eftir að hafa brotist vopnaðir inn í húsnæði á Grensásvegi á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þeir voru handteknir í leigubifreið stuttu eftir að tilkynnt hafði verið til lögreglu um innbrotið.

Síðdegis í gær var síðan tekin skýrsla af manni sem var staðinn að búðarhnupli í matvöruverslun.

Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt til lögreglu um að nokkrir einstaklingar hefðu brotist inn í sundlaug í Kópavogi og væru að baða sig. 

Lögreglan handtók mann sem hafði brotið sér leið inn í íbúð á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og er hann vistaður í fangageymslu lögreglu.

Í nótt barst síðan tilkynning um mann sem gekk á móti umferð upp Ártúnsbrekku. Ekki kemur fram í dagbók lögreglunnar hvort lögregla hafi haft afskipti af manninum. 

Seint í gærkvöldi handtók lögreglan síðan mann í miðborginni sem er grunaður um sölu á ávana- og fíkniefnum. Hann er vistaður í fangageymslu lögreglu. 

Þrír ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna síðdegis í gær og í gærkvöldi. Einn þeirra var án ökuréttinda, það er hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum og einn var með fíkniefni í fórum sínum. Málin voru afgreidd með hefðbundnum hætti, það er tekið blóðsýni og skrifuð skýrsla.

mbl.is