Hjólagarpar rýna hjólainnviði Kópavogs

Framkvæmdir standa nú yfir við nýjan hjólastíg við Fífuhvammsveg
Framkvæmdir standa nú yfir við nýjan hjólastíg við Fífuhvammsveg mbl.is/Kristinn Magnússon

Þótt Reykjavík hafi undanfarin ár verið hvað fyrirferðarmest í umfjöllun um uppbyggingu hjólainnviða á höfuðborgarsvæðinu eru önnur sveitarfélög einnig stórhuga í þessum málum og Kópavogur er þar engin undantekning.

Unnið er að hjólreiðaáætlun bæjarins til ársins 2025 og verður hún lögð fyrir umhverfis- og samgöngunefnd bæjarins í maí. Bjarki Valberg, umhverfisfulltrúi á skipulagssviði Kópavogs, segir að horft sé til þess að halda áfram mikilli uppbyggingu innviða og að tengja betur saman hverfi bæjarins. Þá lýsir hann jafnframt því ferli sem farið er í til að rýna árangur af uppbyggingu og hvernig metið sé hvort leggja þurfi aukna áherslu á ákveðnar framkvæmdir.

Bjarki segir að í Kópavogi séu nokkrir sjálfvirkir hjólateljarar sem eigi að geta greint á milli hjóla, vagna og gangandi sem meti þá notkun sem sé á helstu stígum bæjarins. Þetta sé verkefni sem sé unnið í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, en mælunum hafi verið skipulega dreift til að meta hvernig umferðin dreifist um svæðið í heild. Þá sé í júní á hverju ári handtalin umferð á ákveðnum leiðum og þannig fengin nákvæmari tala á fleiri stöðum en mælarnir ná til. Bjarki segir að einnig sé horft í tölur frá hjólaforritinu Strava og reynt að greina það af hverju ákveðnar leiðir séu hjólaðar meira en aðrar. Hvort það sé vegna beinna vinsælda eða hvort hjólreiðafólk þurfi að leggja lykkju á leið sína þar sem stysta leiðin sé ógreiðfærari. Allar þessar tölur eru að hans sögn notaðar til að meta þörf á uppbyggingu í ljósi umferðar og þeirrar þarfar sem sé til staðar.

2-3 á hverju sumri að meta stíga og ræða við hjólreiðafólk

Bærinn hefur einnig á undanförnum þremur árum haft 2-3 hjólagarpa í því verkefni að meta kerfið af eigin hendi og með því að ræða við aðra notendur stíganna. „Við köllum þetta hjólagarpana,“ segir Bjarki en hlutverk þeirra er að gefa skýrslu um hvað megi betur fara, hvað sé mikið notað og hvað lítið. Þar skipti huglægi þátturinn ekki minna máli en tölfræðilegi þátturinn sem fæst úr beinum mælingum. „Vellíðan og upplifun eru líka mikivæg atriði varðandi hvaða stíga fólk velur að nota,“ segir Bjarki. Markmið hjólagarpanna sé að reyna að ná þessum þáttum fram og í grunninn sé þetta ekki ósvipað og þegar skipulagsfræðingar fylgist með torgsvæðum með það í huga hvar best sé að setja niður bekki, tré og stíga. Í þessu tilfelli sé hins vegar um mun víðáttumeira svæði að ræða, en hönnunaratriði skipti áfram miklu máli.

Bjarki segir aðspurður um árangur af hjólagarpaverkefninu að bærinn hafi meðal annars fengið ábendingar um að birtubreyting í undirgöngum væri ekki nógu góð. Þá væru stígar á sumum stöðum of nálægt undirgöngum og það skapaði hættu þegar hjólafólk kæmi úr undirgöngunum. Algengt væri líka að bærinn fengi ábendingar um slæmar holur í gegnum þetta verkefni, svokallaða geitastíga og svæði þar sem bæta mætti öryggistilfinningu, meðal annars með því að skapa betri sjónlínu fyrir hjólandi. „Þetta er óvísindaleg nálgun, en gefur okkur góða innsýn inn í hvernig fólk upplifir innviðina,“ segir hann.

Fylgst með áhrifum breytinganna og stundum brugðist við

Með allar þessar upplýsingar að vopni segir Bjarki að verkefnum sé forgangsraðað, en að reynt sé að fylgjast með áhrifum breytinga að þeim loknum líka. Nefnir hann að eitt besta dæmið um framkvæmd sem hafi fyrst um sinn skilað litlum árangri hafi verið hjólastígurinn meðfram Sæbólsbraut niður í Fossvog. Honum hafi verið ætlað að koma í veg fyrir gegnumstreymisumferð um Sæbólsbrautina, þar sem sé íbúðagata.

Fyrir breytingarnar fóru um 60% af umferðinni beint í gegnum hverfið, en 40% um gamla stíginn meðfram hverfinu. Þrátt fyrir að nýr stígur, sem var mun greiðfærari hafi verið lagður breyttist þetta hlutfall lítið. „Stígurinn var kominn og hann var góður og fínn, en fólk notaði hann ekki,“ segir Bjarki. Í framhaldinu var reynt að finna skýringar á þessu og nefnir Bjarki að ein ástæðan hafi verið tengingar stígsins í Fossvogsdalnum við stíginn sem kom frá Reykjavík. Þetta og fleiri atriði hafi verið löguð og í dag sé umferðin í gegnum hverfið um 20% meðan langstærstur hluti fari um stíginn.

Vilja bæta tengingar milli hvera í bænum

Spurður út í núverandi og framtíðarframkvæmdir fyrir hjólaumferð í Kópavogi segir Bjarki að fyrst beri að nefna yfirstandandi framkvæmdir við Fífuhvammsveg upp í efri hverfi bæjarins, en þar sé unnið að aðgreindum hjólastíg frá Lindakirkju niður í Lindir. Grunnhugmyndin sé að bæta tengingar á milli hverfa í bænum og mikilvægast þar sé að tengja efri byggðirnar í Vatnsenda og Fífuhvammi við Smárahverfið, Hamraborgina og Vesturbæ Kópavogs. Þá segist hann ekki geta sleppt að nefna að framhald þessa verkefnis sé fyrirhuguð brú yfir Fossvog vegna borgarlínu sem tengi Kópavog beint við Skerjafjörð og svæðið við Háskólann í Reykjavík.

Bjarki nefnir einnig aðrar framkvæmdir, en tekur þó fram að enn eigi eftir að samþykkja nýju hjólreiðastefnuna. Ofarlega á blaði sé meðal annars tenging í gegnum Glaðheimasvæðið sem tengi Lindir við Garðabæ. Þá sé horft til þess að fá aðskilinn stíg upp Digranesháls frá Kópavogstúni og upp í Hamraborg og svo frá Hamraborg niður að Fossvogi. Uppbygging á suðurleið Kársness sé einnig á teikniborðinu, frá Kópavogstúni að væntanlegum brúarenda. Að lokum nefnir hann að uppbygging á Selhrygg hafi verið í skoðun, en margir íbúar þekkja stíginn sem landamærastíginn milli Kópavogs og Reykjavíkur, upp frá Reykjanesbrautinni að Arnarnesvegi í efri byggðum.

Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins 30. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert