Leigðu hest og sáu um frá a til ö

Útreiðarklúbbur var stofnaður fyrir tveimur árum.
Útreiðarklúbbur var stofnaður fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Aðsend

Hestaáhugamönnum á höfuðborgarsvæðinu gafst kostur á að leigja hest í vetur fyrir ákveðna upphæð, fara í útreiðartúra og sjá um hann frá a til ö.

Viking Horses er með bækistöðvar í Almannadal, rétt hjá Rauðhólum, og hefur boðið upp á hinar ýmsu hestaferðir um nágrennið.

Verena Wellenhofer, einn af eigendum fyrirtækisins sem hefur verið starfrækt í sjö ár, segir að þau hafi ákveðið að bjóða fólki upp á að leigja hest í fyrsta sinn í vetur, m.a. vegna fækkunar ferðamanna. Fólk á aldrinum 8 til 72 ára stökk á vagninn.  

Kemba hestinn og moka í hestastíu

„Þetta er pínulítið öðruvísi. Þeir sem voru að leigja voru oft tveir og tveir saman og voru að sjá um hestinn, eins og að kemba hann og moka í hestastíunni, en þetta verður ekki í boði í sumar,” segir Verena og segir ástæðuna þá að fleira fólk vill fara á hestbak á sumrin hjá fyrirtækinu.

Ljósmynd/Aðsend

Hún bendir á að fólk þurfi að vera með einhverja reynslu til að geta leigt hest og séð um hann. Ekki hefur verið ákveðið hvort boðið verður upp á þessa þjónustu næsta vetur.

Aðspurð segir hún það kosta um 35 þúsund krónur á mánuði að leigja hesthús fyrir einn hest. Einnig getur verið kostnaður í kringum fylgihluti á borð við hnakk og önnur reiðtygi.

Stofnuðu útreiðarklúbb

Sérstakur útreiðarklúbbur var stofnaður hjá Viking Horses fyrir tveimur árum, áður en kórónuveiran tók að breiðast út. Í vetur voru um 12 manns í klúbbnum en um 20 síðasta sumar.

Alls eru tólf hestar í eigu fyrirtækisins. Þar hefur verið hægt að kaupa útreiðartúra, til dæmis á 70 þúsund krónur fyrir 10 skipti, og sumir sem það hafa gert eru einnig að leigja hest. Einkareiðtímar hafa sömuleiðis verið í boði.

Verena segir Covid-19 hafa reynst fyrirtækinu erfitt, rétt eins og mörgum öðrum, en ekki hafi þurft að skella alveg í lás. Eitthvað hefur verið um bókanir fyrir sumarið og lítur framtíðin því betur út.

mbl.is