Litlar breytingar á veðrinu

Mikil hætta er á sinueldum í veðri sem nú ríkir …
Mikil hætta er á sinueldum í veðri sem nú ríkir á Suður- og Vesturlandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Litlar breytingar í veðrinu líkt og síðustu daga. Norðaustlæg átt, 5-13 m/s, í dag en allt að 15 m/s við Suðausturströndina. Skýjað og dálítil él fyrir norðan og austan en yfirleitt léttskýjað um suðvestanvert landið. Hiti frá frostmarki norðaustan til upp í 8 stig suðvestanlands yfir hádaginn. Búast má við næturfrosti um mestallt land líkt og síðustu nætur.

Keimlíkt veður er svo í kortunum fyrir morgundaginn og því áfram þurrt sunnan- og vestanlands með tilheyrandi hættu á gróðureldum á þessu þurrkatímabili þar, að því er kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi, lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum fyrir helgi.

Svæðið sem um er að ræða nær frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á þessu svæði undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu að ráði.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Veðurhorfur í dag og næstu daga

Norðaustanátt, víða 5-13 m/s en 8-15 við suðausturströndina. Skýjað og dálítil él NA-til en annars yfirleitt léttskýjað. Hiti 0 til 8 stig að deginum, hlýjast SV-lands, en næturfrost um mestallt land. Keimlíkt veður á morgun með dálítið hægari vindi.

Á mánudag:
Norðan og norðaustan 3-10 m/s. Skýjað að mestu en úrkomulítið á Norður- og Austurlandi og frost 0 til 5 stig. Léttskýjað sunnan- og vestanlands og hiti 3 til 9 stig yfir daginn.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt, Skýjað með köflum, smáél á stöku stað en yfirleitt léttskýjað V-lands. Hiti 3 til 8 stig, en kringum frostmark NA-til.

Á fimmtudag (uppstigningardag):
Fremur hæg norðlæg átt, skýjað með köflum og þurrt að kalla en bjartviðri vestan til. Dálitlar skúrir síðdegis syðst. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast SV-lands.

Á föstudag:
Fremur hæg austlæg átt, skýjað með köflum og og dálitlar skúrir eða él S-lands en áfram svalt í veðri.

Á laugardag:
Útlit fyrir hægan vind, bjart veður að mestu og svipaðan hita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert