Sprenging í offituaðgerðum hjá Klíníkinni

Skurðaðgerð á Landspítala.
Skurðaðgerð á Landspítala. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Klíníkin í Ármúla er sá einkaaðili sem framkvæmir flestar offituaðgerðir hér á landi. Í ár stefnir í að þar verði gerðar um þúsund offituaðgerðir á vegum fyrirtækisins. Þá eru ekki taldar með aðgerðir sem Íslendingar fara í erlendis vegna biðtíma, eða þær sem framkvæmdar eru á Landspítalanum. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um offituaðgerðir. 

Samkvæmt upplýsingum frá Klíníkinni eru konur 78% þeirra sem hafa gengist undir þessar aðgerðir og karlar 22%. Meðalaldur þeirra er 44,4 ár og langflestir sjúklinganna, eða 90%, á aldursbilinu 27 ára til 62 ára að því er kemur fram í svari heilbrigðisráðherra. 

Sem fyrr segir stefnir fjöldi aðgerða í ár í þúsund. Í fyrra voru aðgerðirnar fimm hundruð og árið 2019 voru þær 237. Árið 2018 voru offituaðgerðir í Klíníkinni 130 og 62 árið 2017. 

Hefur fjöldi offituaðgerða framkvæmdra í Klíníkinni í Ármúla því um það bil tvöfaldast, ár hvert, síðan árið 2017. 

mbl.is