Starfsmaður á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki smitaður

Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra á Sauðárkróki.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra á Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi

Starfsmaður sjúkrahússins á Sauðárkróki hefur greinst með kórónuveiruna og var í návígi við sjúklinga. Þetta staðfestir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Norðurlandi vestra, við mbl.is. 

Ekki er ljóst hve margir fara í sóttkví vegna smitsins, en smitrakning stendur nú yfir. Stefán segir að viðkomandi starfsmaður starfi á sjúkraþjálfunardeild sjúkrahússins en hafi verið í návígi við sjúklinga sem blessunarlega voru flestir bólusettir gegn veirunni, mestallt eldra fólk. 

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurland vestra.
Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurland vestra. mbl.is/Sigurður Bogi

Grípa hratt og fast til aðgerða

Tilkynnt var síðdegis að gripið verður til hertra aðgerða á Norðurlandi vestra frá og með deginum í dag, á sama tíma og verið er að slaka á sóttvarnaaðgerðum annars staðar á landinu. Fjöldatakmörk munu ennþá miðast við 20 á Norðurlandi vestra í viku til viðbótar hið minnsta, skólum, líkamsræktarstöðvum og sundlaugum verður meðal annars lokað. 

„Við vildum stíga fast til jarðar og reyna að ná utan um þetta sem fyrst. Þannig náum við árangri. Varðandi þetta smit á sjúkrahúsinu þá er það bara í vinnslu, menn eru bara að reyna að ná utan um það eins og hægt er,“ segir Stefán Vagn. 

„Þetta hefur ekki mikil áhrif á starfsemi sjúkrahússins per se, þetta mun hafa áhrif á endurhæfinguna tímabundið, það eru náttúrulega starfsmenn sem munu fara í sóttkví þar,“ bætir Stefán við og segir jafnframt að ekki sé komið í ljós hve margir fari í sóttkví vegna smitsins. Fjölmörg sýni hafa verið tekin á allra seinustu dögum, bæði vegna þessa smits og annarra, og segir Stefán að verið sé að bíða eftir niðurstöðum dagsins í dag.

Mikill samhugur í bæjarbúum

Auk þess að starfa sem yfirlögregluþjónn á svæðinu er Stefán Vagn forseti sveitarstjórnar í Skagafirði. Hann segir að yfirvöld hafi verið í virku samtali við bæjarbúa, yfirmenn stofnana og eigendur fyrirtækja á svæðinu um þær sóttvarnatakmarkanir sem verið er að grípa til. 

„Það er gríðarlegur samtakamáttur í fólkinu,“ segir Stefán.

„Það var svona að skilja á þeim aðilum sem við ræddum við að menn vildu bara að það yrði gripið hratt í og fast. Við fengum strax mikinn meðbyr frá samfélaginu og ég hef ekki heyrt annað en að menn séu bara sáttir, þótt þetta sé auðvitað alveg grautfúlt. Menn vilja bara grípa til þessara aðgerða í styttri tíma en að þurfa glíma við þetta í einhverjar vikur kannski, eða þeim mun lengra jafnvel.“

mbl.is