Sundlaugum, skólum og verslunum lokað

Frá Sauðárkróki í Skagafirði.
Frá Sauðárkróki í Skagafirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tilslökun sóttvarnaaðgerða sem taka á gildi á miðnætti mun ekki gilda um Norðurland vestra. Gripið verður til hertra aðgerða á svæðinu í ljósi aukinnar útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þetta tilkynnti lögreglan á facebook-síðu sinni nú síðdegis. 

Í staðinn munu fjöldatakmarkanir ekki miðast við 50 manns heldur 20 manns í Skagafirði og Akrahreppi til 17. maí næstkomandi.

Þetta er gert vegna stöðu kórónuveirufaraldursins á þessum svæðum. Alls hafa 6 jákvæð kórónuveirusýni verið greind og á þriðja hundrað manns sæta nú sóttkví. Mikill fjöldi sýna var tekinn í gær og í dag og ætla má að fjöldi þeirra sé um 400.

Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra hefur...

Posted by Lögreglan á Norðurlandi vestra on Sunnudagur, 9. maí 2021

Takmarkanir á Norðurlandi vestra:

 • Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að þær tilslakanir á samkomutakmörkunum sem taka gildi mánudaginn 10. maí samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðuneytisins muni ekki taka gildi í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi fyrr en mánudaginn 17. maí.
 • Öllu skólahaldi í Árskóla verður aflýst frá og með mánudeginum 10. maí a.m.k. til og með föstudeginum 14. maí.
 • Leikskólinn Ársalir verður lokaður á sama tíma, nema fyrir skilgreinda forgangshópa, s.s. heilbrigðisstarfsmenn, lögreglumenn og sjúkraflutningsmenn næstu viku.
 • Öll próf í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki verða heimapróf og skólinn lokaður nemendum.
 • Heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra verður rýmd eins og kostur er.
 • Sundlaugar sveitarfélagsins í Skagfirði verða lokaðar frá og með 10. maí og til og með sunnudeginum 16.maí.
 • Íþróttaæfingar yngri flokka verði óheimilar frá og með 10. maí til og með sunnudeginum 16. maí.
 • Öllum íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins verður lokað nema fyrir æfingar meistaraflokka frá og með mánudeginum 10. maí til og með sunnudeginum 16. maí
 • Íþróttakappleikir fullorðinna verða spilaðir án áhorfenda
 • Líkamsræktarstöðvar verða lokaðar frá og með 10. maí til og með sunnudeginum16. maí.
 • Skíðasvæðinu í Tindastóli hefur verið lokað.
 • Umhverfisdagar Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem fara áttu fram 15. maí og plokk-áskorendakeppni milli fyrirtækja sem átti að hefjast núna á mánudag þ.e.a.s á morgun, er frestað um óákveðinn tíma
 • Ráðhúsið á Sauðárkróki verður lokað frá og með mánudeginum 10. maí þar til annað verður ákveðið.
 • Fundum sveitarstjórnar, nefnda og ráða sveitarfélagsins verður frestað um viku.
 • Öllum menningarviðburðum á Sauðárkóki verður aflýst frá og með 10. maí, til og með sunnudeginum 16. maí. Þar með leiksýningum, bíósýningum og öðrum viðburðum þar sem fólk safnast saman. Jafnframt þessum aðgerðum hafa stofnanir og fyrirtæki í Skagafirði ákveðið að bregðast við með eftirfarandi hætti.
 • Afgreiðslutími Skagfirðingabúðar verður lengdur til að dreifa betur verslun og draga úr þeim fjölda sem inni er á hverjum tíma. Viðskiptavinir eru beðnir um að taka tillit til þess.
 • Bílaverkstæði, og Vélaverkstæði KS og Tengill verða lokuð frá og með 10. maí, til og með föstudeginum 14. maí. Tengill mun þó starfa eftir neyðarskipulagi fyrirtækisins næstu viku.
 • Byggingavöruverslun KS á Eyrinni verður lokuð en afgreiðsla verður í gegnum síma.
 • Vörumiðlun mun loka afgreiðslu og jafnframt loka endurvinnslumóttöku en mun afgreiða vörur út úr húsi.
 • Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun loka afgreiðslu í þessa viku og starfsemi verður skert.
 • Byggðastofnun mun loka afgreiðslunni þessa viku og starfsemi verður skert.
 • 1238 Battle of Iceland og Grána bistro verður lokað þessa viku.
 • GrandInn Bar verður lokaður þessa viku.
 • Veitingastaðurinn Lemon verður með matsal lokaðan en selur mat út.
mbl.is