Greindust smitaðir við innlögn

Tveir eru inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-19.
Tveir eru inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-19. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir einstaklingar voru lagðir inn á Landspítala um helgina vegna Covid-19 og eru þeir báðir á gjörgæsludeild. Þetta staðfestir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, í samtali við mbl.is. Báðir greindust þeir smitaðir við innlögn á spítalann.

Mennirnir voru lagðir inn með innan við sólarhrings millibili, sá seinni í gærkvöldi, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði fyrr í dag að líklegt væri að annar þeirra, sem lagðist inn á spítalann í gær, hefði verið veikur um nokkurn tíma úr því veikindi hans væru komin á það stig að hann þyrfti á innlögn að halda.

Alls eru 100 virk Covid-smit nú á landinu, en þessir tveir eru þeir einu sem liggja inni á sjúkrahúsi.

mbl.is