Lögreglan lokar gosstöðvunum

Hér má sjá ferðamenn fylgjast með gosstöðvunum síðdegis í gær. …
Hér má sjá ferðamenn fylgjast með gosstöðvunum síðdegis í gær. Reykurinn sem stígur upp til himins er m.a. vegna gróðurelda á svæðinu. mbl.is/Baldur

Gosstöðvarnar í Geldingadölum og Meradölum verða lokaðar í dag samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

Þetta kemur fram á facebooksíðu lögreglunnar á Suðurnesjum rétt í þessu. Þar segir að ástæðan sé gróðureldar og óhagstæð vindátt við gosstöðvar. 

Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að ákvörðun um lokun í dag hafi verið tekin á stöðufundi fyrr í morgun. 

Hann segir ástæðuna tvíþætta; annars vegar vegna gróðurelda, sem hafa verið viðvarandi vegna mikilla þurrka og aukinnar gosstrókavirkni í einum gíg eldgossins, og hins vegar vegna uppsafnaðar viðhaldsþarfar.

„Slökkvilið Grindavíkur kannaði aðstæður á gossvæðinu um helgina og telur að fara þurfi í frekari könnun og að skoða þurfi með möguleg viðbrögð í dag við gróðureldum,“ segir Gunnar.

Hann segir að á tímabili í gærkvöldi hafi gróðurelda og reyk af þeim lagt yfir gönguleiðir. Þá verði lögreglumenn við gönguleiðir í dag og kunngeri fólki lokunina. 

Tvö ökklabrot um helgina 

„Við erum að vonast til að það verði hægt að laga gönguleið A, sem yfir níutíu prósent fólks gengur að gosstöðvunum. Það eru tvær brattar brekkur í henni sem fólk þarf að ganga upp. Slysin hafa verið að eiga sér stað í þeirri efri,“ segir Gunnar. 

Hann segir að tvö ökklabrot hafi orðið um helgina í efri brekkunni en neðri brekkan sé orðin greiðfær og góð yfirferðar. 

„Þetta gefur okkur svigrúm til þess að vera með vinnutæki á svæðinu í dag.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Gosstöðvarnar verða lokaðar í dag.
Gosstöðvarnar verða lokaðar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Baldur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert