Skírn og sóttkví í Skagafirði

Skírn Birkis Orra Sigfússonar var óhefðbundin.
Skírn Birkis Orra Sigfússonar var óhefðbundin. Ljósmynd/Aðsend

Skírn hins 8 vikna gamla Birkis Orra Sigfússonar fór fram í Sauðárkrókskirkju sl. laugardag. Skírnin var heldur óhefðbundin af þeim sökum að faðir skírnarbarnsins, Sigfús Ólafur Guðmundsson, var í sóttkví og þurfti því að fylgjast með skírn sonar síns í gegnum myndsímtal.

Sex smit greindust í Skagafirði um helgina og fékk fjölskyldan símtal klukkan hálftólf á föstudagskvöldið, um að Sigfús þyrfti að fara í sóttkví. Þau tóku þá ákvörðun, eftir að hafa hringt í prestinn, að skírnin myndi fara fram og að Sigfús yrði með í gegnum myndsímtal. „Við hefðum aldrei gert þetta nema af því að hann var alveg til í þetta,“ segir Bryndís Hallsdóttir, móðir Birkis og eiginkona Sigfúsar.

Fjölskyldan hafði val þegar að sóttkvínni kom, annaðhvort færi aðeins Sigfús í sóttkví, eða þau öll. Þau ákváðu að þar sem þau væru með 8 mánaða gamlan son og 3 ára son á heimilinu, væri best að Sigfús færi einn í sóttkví.

Bryndís segir að hún hafi metið stöðuna svo að fyrst Sigfús væri til í þetta, þá væri betra að klára skírnina af, en allt var tilbúið og gestir komnir að sunnan og austan.

„Ef það verður mikið samfélagssmit þá verður staðan örugglega enn verri eftir eina viku eða tvær, fleiri útsettir og við gætum ekki haldið veisluna fyrr en eftir langan tíma,“ segir Bryndís.

Sigfús tók virkan þátt í athöfninni þó í sóttkví væri. Um morguninn tók hann upp lag sem hann hafði ætlað sér að syngja við athöfnina og það var spilað. „Í rauninni er þetta bara eftirminnilegt, eins og allt þetta ár. Maður verður bara að finna lausnir í þessum aðstæðum. Um kvöldið ræddum við einmitt að við værum fegin að við hefðum gert þetta svona. Auðvitað var leiðinlegt að hann gat ekki verið með en hann upplifði samt aldrei að hann væri ekki með okkur, ekki fyrr en við fórum í veisluna,“ segir Bryndís og bætir við að þau hafi farið með veitingar úr veislunni og skilið eftir fyrir utan hjá honum. Bryndís segir að þau líti á björtu hliðarnar, sóttkvíin hafi ekki komið upp á þegar þau giftu sig síðastliðið sumar, enda vissulega erfiðara að gefa hjón saman þegar brúðguminn er ekki á staðnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert