Skorradalurinn er púðurtunna

Björn Björnsson, Heiðar Örn Jónsson varaslökkviliðsstjóri og Tryggvi Valur Sæmundsson …
Björn Björnsson, Heiðar Örn Jónsson varaslökkviliðsstjóri og Tryggvi Valur Sæmundsson voru á vettvangi í Skorradal á laugardagskvöldið og könnuðu aðstæður. Eldhættan er mikil. mbl.is/Sigurður Bogi

„Sinubruna og skógarelda ætti að skilgeina sem náttúrvá. Allt samfélagið þarf að vera vakandi gagnvart þessari hættu, eldarnir geta staðið lengi og valdið miklum skaða,“ segir Heiðar Örn Jónsson, varaslökkviliðsstjóri í Borgarfirði. Öflug varðstaða með 16 mönnum á bakvakt var hjá Slökkviliði Borgarbyggðar um helgina vegna hættu á sinueldum. Heiðar Örn fór með sínum mönnum í eftirlitsferð um Skorradal á laugardagskvöld til að kanna aðstæður. Morgunblaðið slóst með í för.

Allt fari í bál og brand

Á sunnan- og vestanverðu landinu hefur ekki deigur dropi komið úr lofti í langan tíma svo jörð er skraufþurr; tré og stiklar lúpínu síðasta árs. Aðeins þarf sígarettuglóð svo allt fari í bál og brand. Hættan er áfram viðvarandi því ekki er spáð rigningu næstu daga. „Skorradalurinn er eins og púðurtunna við aðstæður eins og nú,“ sagði Tryggvi Valur Sæmundsson slökkvliðsmaður sem var á vakt í dalnum um helgina.

Skorradalur. Horft inn eftir dalnum. Hlíðar eru skógi vaxnar upp …
Skorradalur. Horft inn eftir dalnum. Hlíðar eru skógi vaxnar upp á brekkubrún frá flæðarmáli, þangað sem víða er torvelt að komast til vatnsöflunar. mbl.is/Sigurður Bogi

Fyrir helgina lýstu lögregla og aðrir sem málum ráða yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum; á svæðinu sem nær frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi. Og allur er varinn góður; þegar blaðmaður fór í Borgarfjörð og var við Hafnarfjall komu textaskilaboð í símann þar sem beðið var um að fólk sýndi aðgæslu vegna eldhættu. „Förum varlega því lítill neisti getur gert mikið bál,“ stóð þar.

Með tilliti til eldhættu hafa sjónir sérstaklega beinst að Skorradal, þar sem er víðfeðmt samliggjandi skóglendi og þétt byggð sumarhúsa. Þá er aðeins ein greiðfær leið inn og út úr dalnum svo flóttaleiðir eru litlar komi verstu aðstæður upp. Aukinheldur er vegurinn mjór svo erfitt yrði fyrir bílstjóra stærri ökutækja að mætast þar. Öll þessi atriði eru nú til skoðunar og fólki ljóst að úrbóta í forvarnaskyni er þörf.

Skipta skógi í eldvarnahólf

mbl.is/Sigurður Bogi

„Slökkviliðið þarf að vera á undan komi eldur upp. Allur viðbúnaður þarf að vera hugsaður með það fyrir augum. Slökkviliðið hér er ágætlega búið tækjum þó vissulega vanti alltaf eitthvað. Viðbúnaðurinn lýtur að því að skipta þarf til dæmis Skorradalnum upp í eldvarnahólf; að milli skógarreita séu auð belti þar sem eldur í útbreiðslu myndi stöðvast. Einnig þurfa að vera vatnsleiðslur og brunahanar víða um svæðið. Slíkt er að nokkru leyti komið en betur má gera,“ segir Heiðar Örn og bætir við:

„Sumarhúsaeigendur hér eru meðvitaðir um hættuna og margir eru komnir með klöppur, sem duga vel til að slá á eldjaðar og slökkva. Mikilvægast er samt að fólk sýni aðgæslu. Sinueldur af völdum flugelds að vorlagi var sérstakt mál.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert